Innlent

„Hvernig hafa venjulegir Íslendingar upplifað Hrunið?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sara Gangsted vill vita hvernig Íslendingar hafa upplifað Hrunið og brugðist við breyttum aðstæðum í kjölfar þess.
Sara Gangsted vill vita hvernig Íslendingar hafa upplifað Hrunið og brugðist við breyttum aðstæðum í kjölfar þess. Vísir/Stefán/Sara
„Mig langar til að vita hvernig venjulegir Íslendingar hafa upplifað Hrunið og hvernig þeir brugðust við breyttum aðstæðum. Mér finnst það á einhvern undarlegan hátt mjög heillandi hvernig heilt land fór nánast á hliðina og ég velti því mikið fyrir mér hvað fólk gerði í kjölfarið,“ segir Sara Gangsted, danskur nemi í fréttaljósmyndun við Danish School of Media and Journalism.

Sara hefur oft komið til Íslands áður en hefur nú verið hér í tæpar tvær vikur. Hún vinnur að stóru skólaverkefni og fjallar hennar verkefni um Íslendinga og efnahagshrunið.

„Í fréttaljósmyndun er markmiðið að segja sögu með ljósmynd. Í mínu verkefni vil ég segja sögu nokkurra Íslendinga og hvernig líf þeirra breyttist eftir Hrunið. Ég tek mynd og svo stutt viðtal við viðkomandi til að fá betri innsýn inn í líf hans eða hennar.  Ég á nefnilega líka að skrifa grein með  myndunum en í náminu lærum við einmitt hvernig þetta tvennt vinnur saman, fréttaljósmyndir og fréttir eða greinar.“

Sara las bók Einars Más Guðmundssonar, Íslenskir kóngar, áður en hún kom til landsins.

„Mér fannst bókin mjög fyndin og kaldhæðin, og þó að þetta sé skáldskapur þá virðist mér vera eitthvað sannleikskorn í henni.“ Sara segist gjarnan vilja taka viðtal við Einar Má fyrir verkefnið sitt og vonar að það gangi eftir.

„Ég vil taka mynd og viðtal við svona 4-6 einstaklinga en enn sem komið er hef ég bara talað við tvo. Ég ræddi meðal annars við konu sem breytti húsinu sínu í gistiheimili í stað þess að selja það. Þannig gat hún borgað af húsnæðisskuldunum.“

Sara verður á Íslandi til 4. október og segir að fólk megi hafa samband við hana vilji það deila reynslu sinni af Hruninu með henni. Hægt er að finna hana á Facebook eða skrifa henni póst á sgangsted@gmail.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×