Erlent

„Húsin hrynja í ána og verða að tannstönglum“

Atli Ísleifsson skrifar
Áin Opo hefur víða flætt yfir bakka sína.
Áin Opo hefur víða flætt yfir bakka sína.
„Það er hálfgert neyðarástand hérna í bænum. Það hætti aðeins að rigna í morgun en því miður er byrjað að rigna aftur,“ segir Ásta Steinunn Ástþórsdóttir, íbúi í norska bænum Odda, um 100 kílómetrum austur af Bergen.

Gríðarleg úrkoma hefur verið í Noregi síðustu daga og hafa ár víða flætt yfir bakka sína. Ástandið er einna verst í bænum Odda.

„Ég var að horfa á fréttamannafund þar sem kom fram að það væri byrjað að minnka í ánni en miðað við þessa rigningu sem var að byrja núna þá er ég ansi hrædd um að hún haldi áfram að vaxa,“ segir Ásta Steinunn í samtali við Vísi.

Ásta Steinunn segir að tjónið hafa verið mjög mikið. „Þetta leit illa út í gærkvöldi. Þá vissum við að áin væri byrjuð að flæða yfir bakka sína. Tjaldsvæði hérna ofarlega í bænum var allt komið á flot og fólk var farið að gera sér grein fyrir því að þetta væri hættuástand. Svo þegar ég vaknaði í morgun var búið að rýma þó nokkuð mörg hús og áin var búin að taka fimm íbúðarhús.“

Um 15 til 20 Íslendingar í Odda

Ásta Steinunn segir byggðina vera svo nálægt ánni. „Þessi á verður oft stór en aldrei svona stór. Þetta er eitthvað met. Þá grefur áin grunninn undan húsunum og húsin hrynja ofan í ána og verða að tannstönglum.“

Ásta Steinunn segist sjálf búa í húsi sem sé á mjög fínum stað, sé ekki nálægt ánni og ekki í neinni hættu. Hún segir um fimmtán, tuttugu Íslendinga búa í bænum. „Allt mitt fólk er á fínum stað. Við erum ekkert í neinni hættu sem betur fer.“

Yfirvöld hafa nú látið rýma 22 hús í bænum og hafa um 75 manns yfirgefið heimili sín. „Þeir hafa miklar áhyggjur af því að það komi svo mikill aur og steinar með ánni og þeir eru ennþá hræddur um mjög mörg hús.“

Norðmenn svo skynsamir

Ásta Steinunn segir ótrúlegt að engin slys hafi orðið á fólki. „Megnið af þessu gerðist náttúrulega í kolniðamyrkri í nótt, en ekki hafa orðið nein slys á fólki. „Það er svo frábært með Norðmenn, þeir eru svo skynsamir og þeir eru svo fljótir að taka góðar ákvarðanir. Þeir eru vanir því hérna á Vesturlandinu, það er oft mikil skriðuhætta. Þeir eru snöggir að taka ákvarðanir og láta fólk frekar rýma hús sín, frekar en að vera þar áfram að óþörfu.“

Byggðin í Odda er mjög nálægt ánni.Mynd/Ásta Steinunn Ástþórsdóttir
Áin Opo.Mynd/Ásta Steinunn Ástþórsdóttir

Tengdar fréttir

Norðmenn búa sig undir mikið berghlaup

Norskir jarðfræðingar reikna með að stærðarinnar berghlaup verði í fjallinu Mannen milli Bergen og Þrándheims næstu klukkustundirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×