Viðskipti innlent

„Hressileg“ hækkun fasteignaverðs í október

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Meðalviðskipti með fasteignir á mánuði eilítið meiri það sem af er ári nú heldur en var á öllu árinu 2015.
Meðalviðskipti með fasteignir á mánuði eilítið meiri það sem af er ári nú heldur en var á öllu árinu 2015. Vísir/Anton
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um tvö prósent milli mánaða í október að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans, þar sem hækkunin er sögð „hressileg.“

Verð í fjölbýli hækkaði um 1,8 prósent og verð á sérbýli hækkaði um 2,2 prósent en síðustu tólf mánuði hefur fjölbýli hækkað um 13,6 prósent, sérbýli um 14,2 prósent og er heildarhækkunin 13,6 prósent. Í Hagsjánni kemur fram að þetta séu mestu árshækkanir sem sést hafa allt frá árinu 2007.

„Það er athyglisvert að árshækkun sérbýlis er meiri en á fjölbýli annan mánuðinn í röð og hefur sú staða ekki verið uppi síðan vorið 2012. Allt frá þeim tíma hefur árshækkun fjölbýlis verið meiri. Síðustu 6 mánuði hefur sérbýlið hækkað um 10,6% og fjölbýli um 8,6%. Sérbýli hefur því tekið nokkuð fram úr á allra síðustu mánuðum,“ segir í Hagsjánni.

Þá eru meðalviðskipti með fasteignir á mánuði eilítið meiri það sem af er ári nú heldur en var á öllu árinu 2015. Viðskipti með fjölbýli eru svipuð en viðskipti með sérbýli hafa verið mun líflegri en í fyrra.

Hagsjána má sjá í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×