Erlent

„Horfið á það sem ég er að fara að gera“

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnisvarði var reistur á gangstéttinni þar se Brinsley skaut þá Wenjian Liu og Rafael Ramos.
Minnisvarði var reistur á gangstéttinni þar se Brinsley skaut þá Wenjian Liu og Rafael Ramos. Vísir/AP
Ismaaiyl Brinsley bað vegfarendur um að fylgjast með áður en hann skaut tvo lögreglumenn til bana í New York á laugardaginn. Eftir að hafa skotið lögreglumennina Wenjian Liu og Rafael Ramos, þar sem þeir sátu í lögreglubíl, hljóp hann niður í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar og framdi sjálfsmorð.

Nokkrum klukkutímum áður hafði hann skotið fyrrverandi kærustu sína, en hún lifði árásina af. Brinsley hefur áður verið ákærður fyrir fjölda ofbeldisglæpa og hefur átt við geðræn vandamál að stríða.

Brinsley hafði um nokkra vikna skeið skrifað ummæli á samfélagsmiðlum gegn lögreglu og stjórnvöldum vegna dauða Michael Brown og Eric Gardner. Brown var óvopnaður þegar hann var skotinn af lögregluþjóni og Gardner lést eftir að lögreglumenn tóku hann hálstaki.

Færsla Brinsley á Instagram.
Á vef Breska ríkisútvarpsins segir að Brinsley hafi sagt frá ætlunum sínum á Instagram skömmu fyrir árásina.

„Ef þeir taka einn af okkur....Tökum við tvo af þeim. #ShootThePolice #RIPEricGardner #RIPMichaelBrown. Þetta gæti verið síðasta færslan mín,“ sagði Brinsley á Instagram.

Einungis fáum mínútum fyrir árásina ræddi hann við tvo menn sem hann hitti út á götu. Hann spurði þá hvort þeir væru í gengi og hann bað þá um að fylgja sér á Instagram. Þá sagði hann: „Horfið á það sem ég er að fara að gera.“

Því næst gekk hann hjá bílnum sneri við og skaut fjórum skotum í gegnum rúðu lögreglubílsins farþegamegin.

Lögregluþjónar í New York eru nú á varðbergi og svara ekki köllum nema á tveimur bílum. Þá er fylgst með samfélagsmiðlum og var maður í Tennessee handtekinn eftir að hann skrifaði að hann væri á leið til New York til að skjóta fleiri löggur.


Tengdar fréttir

Tveir lögreglumenn skotnir til bana í New York

Lögregluþjónarnir tveir, Rafael Ramos og Wenjian Liu, voru skotnir til bana í Brooklyn-hverfinu í gærkvöldi. Árásarmaðurinn svipti sig lífi skömmu síðar.

Barack Obama fordæmdi morð á lögreglumönnum

Tveir lögreglumenn í New York voru myrtir á laugardagskvöld. Málið vekur óhug vestra. Obama forseti segir að lögreglumenn, sem hætti lífinu fyrir öryggi borgaranna, eigi að njóta virðingar hjá almenningi í hvívetna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×