Fótbolti

„Hommahatari og kynþáttahatari“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sarri og Mancini.
Sarri og Mancini. Vísir/Getty
Roberto Mancini, stjóri Inter á Ítalíu, sakar Maurizio Sarri, stjóra Napoli, um að hafa notað afar óviðeigandi orðbragð á meðan bikarleik liðanna stóð í gær.

„Slíkum manni væri ekki leyft að stýra liði á Englandi,“ sagði Mancini við ítalska fjölmiðla eftir leikinn í gær.

Mancini sagði að Sarri hafi kallað sig homma og sakaði hann einnig um kynþáttaníð, þó svo að hann hafi ekki útskýrt það nánar.

„Ég fór að finna Sarri eftir leik og hann baðst afsökunar. En ég vil að hann skammist sín fyrir það sem hann sagði,“ bætti Mancini við. „Fólk eins og hann á ekki heima í fótbolta. Annars hættir þetta aldrei.“

Sarri gerði lítið um málinu í samtali við fjölmiðla eftir leik og kvaðst ekki muna hvaða orð hann notaði nákvæmlega.

„Svona hlutum eiga að vera lokið á vellinum. Ég bað hann afsökunar en ég býst við því sama af honum. Rifrildi á vellinum á að vera lokið innan tíu sekúndna.“

„Ég var æstur og reiður svo ég er ekki viss um hvað ég sagði. Ég viðurkenni að það var ekki réttur tónn í þessu hjá mér. Ég vil ekki mismuna neinum. Ef ég notaði þessi orð bið ég samkynhneigða afsökunar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×