Viðskipti innlent

„Höfum sent fólk beint á bráðamóttökuna“

Edda Sif Pálsdóttir skrifar
Þær Nanna Bryndís Snorradóttir og Rósa Eiríksdóttir kynntust á Dale Carnegie námskeiði árið 2008, hittust aftur um haustið í hjúkrunarfræði og störfuðu saman á slysa- og bráðamóttökunni í Fossvogi. Þar blöskraði þeim hversu margt ungt fólk leitaði hjálpar vegna hinna ýmsu lífsstílskvilla.

„Íslendingar eru ein feitasta þjóð í heimi, yfir helmingur landsmanna er yfir kjörþyngd og út frá þessu kviknaði hugmyndin að Heilsuhjúkrun,“ segir Rósa og á þá við fyrirtæki sem þær Nanna stofnuðu saman í fyrravor

„Okkur langaði að fara út í samfélagið og skima fyrir þessum helstu áhættuþáttum, s.s. blóðþrýstingi, blóðsykri í tengslum við áunna sykursýki og kólesteróli.“ Fyrirtæki geta keypt þjónustu af Heilsuhjúkrun sem felur í sér fyrirlestra og mælingar fyrir starfsfólk og þannig mögulega fækkað veikindadögum og aukið vellíðan á vinnustaðnum.

Þær stöllur segja hollt mataræði, hreyfingu og heilbrigt líferni eðlilega skipta máli fyrir almenna vellíðan og góða heilsu en benda á að ekki megi gleyma áhrifaþáttum eins og álagi. Heilbrigðasta fólk hefur mælst með háþrýsting, m.a. vegna álags, en hann er jafnan einkennalaus og stundum kallaður „the silent killer“ eða launmorðinginn. Að sama skapi hefur fólk sem taldi eitthvað vera að fengið staðfestingu á að svo sé ekki.

Sjá innslagið úr Íslandi í dag í spilaranum að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×