Skoðun

„Hin breiða skírskotun“

Ingvar Gíslason skrifar
Ekki þarf neinn að undra þótt maður í minni stöðu með langa ævi að baki hafi fylgst af áhuga og spenningi með kosningadagskrá sjónvarpsins aðfaranótt sunnudags.

Spenningurinn var reyndar slævður af því að sýnilega mátti ráða af líkum að ríkisstjórnin væri á fallanda fæti, hún átti sér ekki viðreisnar von. Stjórnarflokkarnir voru sundraðir innbyrðis og í milliflokkasamkomulagi. Þess vegna voru endalok ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur ekki öðrum að kenna en þeim sem að henni stóðu. Slíkt ástand er ekki líklegt til kosningasigra.

Það er því síst að undra að stjórnarandstöðuflokkar áttu góða von um að fylla það gap sem ríkisstjórnin og fylgislið hennar skildi eftir.

Úrslitin skýr

Nú er runnin upp sú stund að mynda verður nýja ríkisstjórn. Úrslit kosninganna eru skýr. Hryggjarstykkið í fráfarandi ríkisstjórn, Samfylkingin, er svo brákað og illa á sig komið að dæmalaust er. Jafnvel þeir sem síst hafa kunnað að meta flokk þennan fylltust samúð þegar þeir sátu undir sárri buslubæn nýkjörins formanns, Árna Páls Árnasonar. Þessi flokkur er ekki stjórntækur að svo komnu og þarf langrar hvíldar við sér til heilsubótar.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir það að tveir helstu stjórnarandstöðuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafi unnið mikinn sigur (Framsóknarflokkur raunverulegan sigur, Sjálfstæðisflokkur varnarsigur), þá er það ekki fyrir fram gefið að þeir myndi stjórn þegjandi og hljóðalaust strax á morgun. Þjóðin þarf á öðru að halda en því sem oft er kallað „sterk stjórn“ fyrir það eitt að vera meirihlutastjórn, formlega sterk upp á atkvæðagreiðslur í þinginu. Slíkt getur alið upp þá hugsun að deila og drottna í skjóli atkvæðavalds (dæmin eru nærtæk frá ferli fráfarandi stjórnar).

Katrínu mæltist vel

Katrínu Jakobsdóttur mæltist vel þegar hún sagði á kosninganóttina: „Næsta stjórn þarf að hafa breiða skírskotun.“ Sigurvegarar kosninganna mættu hugleiða þessi orð. Það mundi hvorki saka æru þeirra né áhrifavald.




Skoðun

Sjá meira


×