Innlent

„Heldur ónotalegt að sitja undir því dag eftir dag að vera sakaður um að plata fólk“

Birgir Olgeirsson skrifar
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar.
„Það er því heldur ónotalegt að sitja undir því dag eftir dag að vera sakaður um að plata fólk,“ skrifar Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann kvartar undan umræðu um bílahlunnindi forstjóra fyrirtækisins.

Fréttablaðið sagði frá því í dag að Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, hefði afsalað sér 6,6 milljóna króna Mitsubishi-tvinnbíl sem fyrirtækið keypti fyrir hann fyrir tæpum mánuði.

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórn Orkuveitunnar, gagnrýndu Eirík Hjálmarsson á stjórnarfundi síðastliðinn mánudag fyrir að hafa ranglega sagt Fréttablaðinu í febrúar að Bjarni forstjóri hefði bíl frá fyrirtækinu í samræmi við ráðningarsamning frá 2011.

Haft var eftir Eiríki í Fréttablaðinu í gær að hið rétta væri að byggt hefði verið á niðurstöðu kjararáðs við ákvörðun bílafríðinda forstjórans og baðst afsökunar á ónákvæmninni. Kjartan sakar Eirík um að reyna að afvegaleiða umræðuna því þegar ákveðið var að miða við úrskurð kjaradóms um laun forstjóra Landsvirkjunar sneri sú ákvörðun að launatölu og segist Kjartan hafa staðið í þeirri trú að forstjóri hefði ekki bifreið til einkaafnota hjá fyrirtækinu.

Eiríkur segir á Facebook-síðu sinni í dag að það sé ónotalegt fyrir starfsmann að standa í þrasi við stjórnarmann í fyrirtækinu sem hann starfar hjá fyrir milligöngu blaðamanns.

„Á þeim bráðum níu árum, sem ég hef starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur, hef ég leitast við að starfa af heilindum undir stjórn fjögurra forstjóra og með sjö stjórnarformönnum. Ýmislegt hefur gengið á í rekstri fyrirtækisins á þessum tíma, eins og alþjóð veit, en ég hef ekki séð ástæðu til að skrifa bréf til að bera blak af sjálfum mér fyrr en núna,“ skrifar Eiríkur en bréfið í heild má sjá hér fyrir neðan:

Það er mikilvægt að fólk geti treyst því að talsmenn fyrirtækja – og þá sérstaklega fyrirtækja í opinberri eigu – segi skilmerkilega frá. Það er því heldur ónotalegt að sitja undir því dag eftir dag að vera sakaður um að plata fólk. Það er líka nokkuð ónotalegt fyrir starfsmann að standa í þrasi við stjórnarmann í fyrirtækinu sem hann starfar hjá fyrir milligöngu blaðamanns. Þetta er nú samt staðan, þannig að ég læt á það reyna að koma sjónarmiðum milliliðalaust á framfæri, hér í mínum eigin fjölmiðli.

Til umfjöllunar hafa verið ráðningarsamningar forstjóra OR; sá sem upphaflega var gerður 2011 og síðan þau kjör sem stjórn ákvað honum nú snemma árs 2015. Eftir stjórnarfund í Orkuveitunni í febrúar, þar sem ég kem hvergi nærri, fékk ég nokkrar spurningar frá blaðamanni í tölvupósti. Þeim var svarað og sjást samskiptin hér að neðan. Spurningarnar eru feitletraðar:

1. Óskað er eftir tillögum starfskjaranefndar OR sem nefndar eru í fundargerðinni.

Vinsamlegast fylltu út til þess gert eyðublað til að fara fram á aðgang að gögnum. Hér er það: [tengill]

2. Hver eru launa- og starfskjör forstjóra OR?

Laun: 1.900 þkr. á mánuði.

Afnot af bifreið, skv.samþ. stjórnar: Fyrirhugað er að kaupa Mitsubishi Outlander PEHV en hann er svokallaður tengiltvinnbíll sem gengur fyrir rafmagni en bensíni ef rafmagnið þrýtur. Verðmæti 6.580.000 kr.

Stjórnarstörf: Greitt er sérstaklega fyrir formennsku í stjórnum tveggja dótturfélaga, enda fylgir stjórnarsetunni sjálfstæð ábyrgð að lögum. Stjórnarlaunin nema nú 200.000 kr. á mánuði í hvoru félagi og eru greidd af viðkomandi félögum.

3. Frá hvaða tíma hefur forstjóri OR haft jeppa frá fyrirtækinu til umráða?

Hann hefur ekki haft afnot af jeppa heldur Toyota Yaris tvinnbíl frá 1. október 2013.

4. Hverrar tegundar og árgerðar er sá jeppi og hvert er bókfært verðmæti hans?

Sjá að ofan.

5. Gat stjórnarmönnum OR verið ókunnugt um að forstjórinn hefði jeppa til umráða?

Forstjóri hefur aldrei haft jeppa til umráða sbr. 3. að ofan. Um heimild til afnota af bifreið var samið í upphaflegum ráðningarsamningi stjórnar við forstjóra í ársbyrjun 2011. Forstjóri átti þann rétt að velja hvort hann væri á bíl frá Orkuveitunni eða ekki. Hlunnindaandvirði bílsins dróst frá launum hans. Kaupin á Yarisnum voru í fullu samráði við formann stjórnar og formann starfskjaranefndar.

Eftir stjórnarfund Orkuveitunnar nú á mánudaginn bar sami blaðamaður undir mig bókun tveggja stjórnarmanna af fundinum þar sem fullyrt var að í  póstinum hér að ofan hefði ég farið með rangt mál; ákvæði um afnot af bíl væru ekki í ráðningarsamningi forstjóra. Eftir að hafa farið nánar yfir gögn, svaraði ég blaðamanninum með þessum hætti:

Þetta er rétt hjá stjórnarmanninum að ákvæðið er ekki í ráðningarsamningnum heldur í þeim úrskurði kjararáðs sem samningurinn byggir á. Beðist er velvirðingar á ónákvæmninni.

Í ráðningarsamningi segir: „OR og BB hafa samið sín á milli að laun forstjóra skuli að jafnaði miða við ákvörðun kjararáðs um laun forstjóra Landsvirkjunar, eftir því sem við á.“

Úrskurðurinn [þ.e. Kjararáðs] er hér [tengill] og í honum segir: „Kjósi forstjórinn að halda bifreiðahlunnindum sínum skal draga verðmæti þeirra samkvæmt mati ríkisskattstjóra frá heildarlaunum sem hér eru ákveðin.“

Það var á þessum grunni að forstjóri valdi, að höfðu samráði við stjórnarformann og formann starfskjaranefndar, að fá Toyota Yaris til umráða, enda drógust þau hlunnindi frá launum hans.

Þá gerist það að ásakanir um rangfærslur eru ítrekaðar á síðum Fréttablaðsins og yðar einlægur sakaður um að afvegaleiða umræðuna. Mitt hlutverk er ekki að skera úr í ágreiningsefnum innan stjórnar OR hvað þá að túlka ráðningarsamning míns yfirmanns eða gögn honum tengd. Það gerði stjórnarformaður og formaður starfskjaranefndar stjórnar í þessu tilviki. Til míns friðar heyrir að stuðla að því að fólk og fjölmiðlar hafi sem gleggstar upplýsingar um ákvarðanir sem teknar eru og starfsemi fyrirtækisins yfirleitt. Stundum tekst það vel en oft má gera betur. Ábendingar um hvað betur megi fara í þessum efnum eru vel þegnar en mér finnast ásakanirnar sem Fréttablaðið hefur bergmálað nú í tvígang ekki sanngjarnar.

Á þeim bráðum níu árum, sem ég hef starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur, hef ég leitast við að starfa af heilindum undir stjórn fjögurra forstjóra og með sjö stjórnarformönnum. Ýmislegt hefur gengið á í rekstri fyrirtækisins á þessum tíma, eins og alþjóð veit, en ég hef ekki séð ástæðu til að skrifa bréf til að bera blak af sjálfum mér fyrr en núna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×