Körfubolti

Hefur tvisvar skilað Íslandsmeistaratitli á fyrsta ári með Njarðvík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson með Íslandsbikarinn eftir að titilinn vannst á Seltjarnarnesi vorið 1998.
Friðrik Ingi Rúnarsson með Íslandsbikarinn eftir að titilinn vannst á Seltjarnarnesi vorið 1998. Vísir/ÞÖK
Friðrik Ingi Rúnarsson skrifaði um helgina undir fimm ára samning um að þjálfa meistaraflokka Njarðvíkur í körfubolta. Þetta koma fyrst fram á karfan.is en var síðan staðfest á heimasíðu Njarðvíkur.

Þetta er í þriðja sinn sem Friðrik Ingi tekur við meistaraflokki karla hjá Njarðvík en hann þjálfaði liðið í tvö tímabil frá 1990-1992 og í þrjú tímabil frá 1998-2000.

„Ég tek við virkilega góðu búi frá Einari Árna og verkefnin framundan eru afar spennandi og krefjandi en jafnframt eru spennandi tímar í kvennastarfinu þar sem iðkendafjöldi hefur aukist gríðarlega á undanförnum  árum.“ er haft eftir Friðriki við undirritunina í frétt á heimasíðu Njarðvíkur en það má einnig finna viðtal við hann á karfan.is.

Friðrik Ingi byrjaði frábærlega með Njarðvíkurliðið í hin tvö skiptin sem hann tók við stjórninni í Ljónagryfjunni. Hann hefur nefnilega tvisvar skilað Íslandsmeistaratitli á fyrsta ári með Njarðvík, fyrst aðeins 22 ára gamall vorið 1991 og svo 29 ára gamall vorið 1998.

Í bæði skiptin hafði Njarðvíkurliðið dottið út úr undanúrslitunum árið áður en sama var upp á teningnum í ár. Njarðvík tapaði í oddaleik á móti Keflavík í fjögurra liða úrslitum 1991 og en Grindvíkingar (þá undir stjórn Friðriks Inga) sópuðu Njarðvíkurliðinu út í fjögurra liða úrslitum 1997.



Allt er þegar þrennt er?

Friðrik tekur við karlaliði Njarðvíkur 1990

Tímabilið fyrir komu Friðriks Inga: Undanúrslit 1990

Fyrsta tímabil Friðriks Inga: Íslandsmeistarar 1991

Friðrik tekur við karlaliði Njarðvíkur 1997

Tímabilið fyrir komu Friðriks Inga: Undanúrslit 1997

Fyrsta tímabil Friðriks Inga: Íslandsmeistarar 1998

Friðrik tekur við karlaliði Njarðvíkur 2014

Tímabilið fyrir komu Friðriks Inga: Undanúrslit 2014

Fyrsta tímabil Friðriks Inga: ???




Fleiri fréttir

Sjá meira


×