Enski boltinn

„Hefði verið betra að kaupa Alves en Pennant og Crouch? Líklega já“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alves varð tvöfaldur meistari á sínu fyrsta og eina tímabili hjá Juventus.
Alves varð tvöfaldur meistari á sínu fyrsta og eina tímabili hjá Juventus. vísir/epa
Rick Parry, fyrrum stjórnarformaður Liverpool, hefur greint frá því að Dani Alves hafi verið hársbreidd frá því að ganga í raðir Bítlaborgarliðsins sumarið 2006.

Liverpool var búið að ná samkomulagi við Alves en hætti svo við kaupin því félagið vildi ekki eyða háum fjárhæðum í bakvörð.

„Við vorum búnir að komast að samkomulagi við Alves eftir miklar flækjur en svo kom spurningin hvort við ættum að kaupa tvo leikmenn eða eyða öllu í bakvörð,“ sagði Parry.

„Alves var ekki leikmaðurinn sem hann er núna en það leit allt út fyrir að hann yrði frábær leikmaður. Hefði verið betra að kaupa hann en [Jermaine] Pennant og [Peter] Crouch? Líklega já, en það er auðvelt að vera vitur eftir á.“

Nú, 11 árum seinna, bendir flest til þess að Alves sé á leið í ensku úrvalsdeildina, til Manchester City þar sem hann hittir fyrir gamla stjórann sinn, Pep Guardiola.

Alves sló í gegn hjá Sevilla áður en Barcelona keypti Brasilíumanninn sumarið 2008. Alves vann 23 stóra titla með Barcelona áður en hann fór til Juventus síðasta sumar. Á sínu fyrsta og eina tímabili þar vann hann bæði deild og bikar.


Tengdar fréttir

Alves fær að fara frá Juventus

Brasilíski bakvörðurinn líklega á leið til síns gamla læriföðurs Pep Guardiola hjá Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×