Innlent

„Héðan í frá mun ég stíga þungum skrefum á móti straumnum“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birta Árdal Bergsteinsdóttir.
Birta Árdal Bergsteinsdóttir.
Birta Árdal Bergsteinsdóttir, 24 ára Mosfellingur, er múslimi. Hún segist hafa tekið þá sjálfstæðu ákvörðun að leggja líf sitt í hendur guðs og feta þann veg sem kallaður er Íslam. Hún er yfir sig ástfangin af „barbara-araba“, eins og hún segir sjálf, en hún gekk í það heilaga einu og hálfu ári eftir að hafa tekið upp trúna. Birta Árdal skrifar pistil í tilefni Jafnréttisdaga á Vísi í dag.

„Ég labba inn í Bónus í lopapeysu og gúmmítúttunum. Ég mæti fyrsta athugula augnaráðinu við flatkökuhilluna. Konan flýtir sér auðvitað að líta eitthvert annað en þegar ég stíg út úr djúpum hugsunum og lít í kringum mig sé ég að flatkökukonan var ekki sú eina sem er forvitin, eða er þetta forvitni? Ætli þau stari vegna þess að ég er klædd eins og sveitalubbi í stórborginni?  Æh já, það er kannski frekar bláa slæðan sem ég sveipaði um hárið á mér áður en ég dreif mig út í grámygluna.“

Birta segist löngu vera hætt að pæla í fólkinu í kringum sig. Henni gæti ekki verið meira sama en pælir stundum í því hvað fólkið sé að hugsa. Hvort um forvitni sé að ræða því sjálf myndi hún líklega stara væri hún ekki sjálf múslimi.

„Jafnvel þegar ég sé annan múslima þá lít ég tvisvar, en reyni þó alltaf að kasta kveðju. „Assalam aleykum!” Eða friður sé með þér! Það er kannski einstöku sinnum sem ég finn fyrir fyrirlitningaraugnaráði. Þá reyni ég að brosa sérstaklega mikið framan í þá mannveru og kannski passa að segja eitthvað á mjög skýrri íslensku; til dæmis eitthvað um smjör eða bannsetta hríðina og norðanvindinn.  Það er eins og það passi ekki alveg inn í litla samfélagið okkar að íslensk stúlka gæti hugsanlega verið múslimi og kosið að ganga með slæðu á höfðinu. Þá hugsar fólkið kannski að ég sé nú ábyggilega bara svona bláeygð, heilaþvegin og ástfangin af araba (þrátt fyrir að aðeins 20% af um 1,6 billjónum múslima jarðarinnar séu arabar).“

Birta lýsir því þegar hún fór að kynna sér Islam. Ranghugmyndum varð snúið á hvolf í haus hennar og hún varð yfir sig ástfangin.

Birta tilkynnti vinum og vandamönnum að hún væri múslimi á Facebook fyrir tæpu einu og hálfu ári. Færsluna má sjá hér að neðan.

Mig langar til þess að segja ykkur svolítið.Ég heiti Birta og ég er Múslimi. Ég er 23 ára Mosfellingur 100% aríi með...

Posted by Birta Árdal Bergsteinsdóttir on Wednesday, June 4, 2014
„Ég gat ekki neitað þessari ást. Þeir sem þekkja mig vita það að ég er ansi iðin við það að fylgja hjartanu. Þekkt fyrir skyndiákvarðanir og heimshornaflakk. Þrátt fyrir allt hjartahjalið og mína sögu í ákvarðanatöku þá var þessi ákvörðun ekki léttvæg. Ástæðan fyrir því hversu erfitt það var að fylgja hjartanu í þetta sinn var samfélagsálitið, fjölskyldan, vinirnir, kunningjarnir og allir þeir hinir sem ég þekki ekki. Þau munu dæma mig. Þau munu setja mig í einhvern annan þjóðflokk. Það verður aldrei aftur snúið í þægilega straumflotið, héðan í frá mun ég stíga þungum skrefum á móti straumnum.“

Pistil Birtu Árdal má lesa með því að smella hér. Þar fer hún meðal annars yfir reglurnar sem múslimar fylgja, raunar gjörðir sem leiða af sér sjálfsaga sem minnki egóið og haldi fólki á jörðinni. 

„Það sem einfaldaði allt í hausnum á mér að lokum var þegar ég vissi að orðið Íslam frá arabísku, þýðir einfaldlega „að gefa sig allan friðsamlega fyrir vilja almættisins“. Orðið muslim er bara komið beint af Islam og er persónugerðorðsins eða „sá sem gefur sig...“. Ég gat ekki neitað því lengur að skilgreina mig. Þetta var of einfalt fyrir rest. Þannig að hér er ég í dag, íslensk múslimastúlka við ávaxtaspegilinn í Bónus, sem rýnir í útlit sitt, sem er ansi skringilegt í augum almennings og pælir í lífinu.“


Tengdar fréttir

Íslamd

Ég labba inn í Bónus í lopapeysu og gúmmítúttunum. Ég mæti fyrsta athugula augnaráðinu við flatkökuhilluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×