Lífið

„Hann var stór partur af lífi okkar og við tókum andlát hans mjög nærri okkur“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Sigurður lést fyrir þremur árum og er sárt saknað.
Sigurður lést fyrir þremur árum og er sárt saknað.
„Þetta er það sem við vildum gera til að þakka fyrir okkur. Við vildum gera eitthvað virkilega stórt. Nú eru orðin þrjú ár síðan hann Sigurður dó frá okkur, innan við sjötugt. Hann var stór partur af lífi okkar og við tókum andlát hans mjög nærri okkur. Við höfum ekki haft það í okkur að minnast hans almennilega fyrr en nú,“ segir Aðalsteinn Svanur Sigfússon hjá menningarsmiðjunni Populus tremula á Akureyri.

Smiðjan heldur tónleika í Hofi á laugardaginn til minningar um aðalhvatamann og leiðtoga Populus tremula, Sigurð Heiðar Jónsson, en hann lést úr MND-sjúkdómnum snemmsumars árið 2011. Populus tremula fagnar einmitt tíu ára afmæli um þessar mundir en smiðjan var stofnuð í kringum hljómsveit sem á sér nokkuð langa sögu. Hljómsveitin var stofnuð af Sigurði sem „tribute“-sveit fyrir ákveðna tónlistarmenn. Fyrsta verkefni sveitarinnar var að flytja tónlist Cornelis Vreeswijk í kringum árið 2002.

„Síðar, þegar Populas tremula-smiðjan var orðin að því fyrirbæri sem hún er núna æfði hljómsveitin prógramm með tónlist Tom Waits. Í framhaldinu fylgdu Nick Cave, Leonard Cohen, Megas og fleiri. En hápunktarnir voru þessir þrír fyrstu, Vreeswijk, Waits og Cave, og tónlist þeirra varð fyrir valinu til að spila á tónleikunum núna í Hofi,“ bætir Aðalsteinn við en gestasöngvarar á tónleikunum verða Sigríður Thorlacius og Valdimar Guðmundsson.

Frá tónleikum Populus-hljómsveitarinnar árið 2007.
Menningarsmiðjan Populus tremula var stofnuð haustið 2004 og fékk þá til umráða húsnæði í kjallara Listasafnsins á Akureyri og hefur haft þar aðsetur síðan. Þótt tónlist hafi verið límið í starfseminni var frá upphafi mörkuð sú stefna að halda úti alhliða menningarsmiðju. Nú, tíu árum síðar, hafa verið haldnir rétt um þrjú hundruð list- og menningarviðburðir í kjallaranum og ókeypis hefur verið inn á alla viðburði frá upphafi.

„Það byggist kannski að einhverju leyti á því að húsnæðið okkar er þannig að það er ekki verjandi að selja inn. Þetta er alvöru „underground“-starfsemi í kjallara,“ segir Aðalsteinn og hlær. „Það er beinlínis tekið fram í samþykktum félagsins frá því það var stofnað að fjárhagslegur ávinningur megi aldrei vera neinn. Þetta er fullkomið hugsjónastarf. Fyrstu árin greiddum við kostnaðinn við þetta úr eigin vasa en þegar árið 2007 rann upp fór að ganga ansi vel að afla styrkja. Eftir hrun hefur Akureyrarbær staðið mjög þétt við bakið á okkur og styrkt okkur sem nemur húsaleigunni. Jafnframt hefur menningarráð Eyþings styrkt okkur þannig að við höfum náð að halda uppi þessari starfsemi.“

En nú eru ár Populus tremula talin.

„Við ætlum að loka um áramótin. Þetta er hópur vina sem stendur að þessu sem er á aldrinum 35 til 65 ára. Þetta er feiknalegt starf sem mæðir á fáum og allt í sjálfboðavinnu. Nú er kominn tími á kynslóðaskipti. Við ætlum að fara mjög stolt frá þessu. Þetta er búið að vera óendanlega skemmtilegt og gefandi starf en nú er kominn tími til að gefa öðrum pláss. Það er okkar einlæga von að eitthvað hliðstætt taki við undir nýju nafni,“ segir Aðalsteinn en Populus tremula hefur sett sitt mark á listalífið í Akureyrarbæ.

„Það er ansi stór hópur myndlistarmanna og skálda, og talsvert af tónlistarfólki, sem hefur stigið sín fyrstu skref hjá okkur. Smiðjan hefur opnað mörgum ákveðna leið til að prófa sig áfram. Við erum ekki síst stolt af því að þó að einlægar stórstjörnur hafi komið fram hjá okkur og haldið sýningar, þá höfum við alltaf tekið vel á móti grasrótinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×