Lífið

"Hann kom grátandi heim og reif plakat með mynd af mér í búta“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Einar og Hjalti.
Einar og Hjalti. mynd/úr einkasafni
„Ég var með sýningu í gær á Húsavík og það var alveg troðfullt. Flotti strákurinn á myndinni heitir Hjalti og hann langaði að koma á sýninguna en það var uppselt. Hann kom grátandi heim og reif plakat með mynd af mér í búta. Mamma hans sendi mér skilaboð á Facebook og lét mig vita af þessu,“ segir töframaðurinn Einar Mikael.

„Mér leið rosalega illa þegar ég las skilaboðin og tíu mínútum eftir að ég las þau var ég mættur heim til hans. Ég lét mömmu hans ekki vita heldur kom honum á óvart og leyfði honum að halda á fuglunum Snúllu og Sóley. Síðan gaf ég honum áritað galdrasett og bók,“ bætir töframaðurinn við. Hjalti fær líka miða á sýningu Einars í Háskólabíói í október.

„Hann fær miða á frumsýningu Sýningar aldarinnar í Háskólabíói á fremsta bekk. Hann fær einnig flugmiða fyrir sig og mömmu sína suður. Það er gulltryggt.“

Einar Mikael segist stundum fá skilaboð í svipuðum dúr.

„Það kemur alltaf eitt og eitt en þessi skilaboð voru sérstök. Þetta var rosalega falleg stund sem við áttum saman og mamma hans sagði mér að ég væri kominn í guðatölu hjá Hjalta,“ segir töframaðurinn. 

Sjónvarpsþáttur Einars Mikaels, Töfrahetjurnar, var frumsýndur síðasta föstudag á Stöð 2 og er töframaðurinn hæstánægður með viðtökurnar.

„Það rignir yfir mig hamingjuóskum og allir skemmtu sér konunglega. Það var hörkumikið ævintýri í sumar að taka upp þættina og ég er mjög stoltur af þeim. Ég held að þeir eigi eftir að lifa lengi enda er þetta eitthvað fallegt sem allir geta haft gaman að.“

Einar Mikael skemmtir á Dalvík í kvöld og er með stóra töfrasýningu í Sjallanum á Akureyri. Rúsínan í pylsuendanum er síðan Sýning aldarinnar, gríðarstór töfrasýning í Háskólabíói þann 23. og 26. október. En hvenær fær töframaðurinn næst frí?

„Eftir sjö ár,“ segir hann og hlær. „Ég er samt ekki að grínast með það. Eftir sjö ár verð ég búinn að ná markmiðum mínum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×