Enski boltinn

„Hann er ofmetnasti leikmaðurinn á plánetunni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere í leiknum í gær.
Jack Wilshere í leiknum í gær. Vísir/Getty
Arsenal er komið áfram í sextán liða úrslit Evrópudeildarinnar og það þrátt fyrir að enska liðið hafi tapað heimaleiknum sínum á móti sænska liðinu Östersund í gær. Eftir leikinn fengu leikmenn Arsenal, og þá sérstaklega einn leikmaður liðsins, að heyra það frá goðsögn úr enska boltanum.

Roy Keane þurfti að hafa mikið fyrir því að vinna Arsenal með Manchester United á sínum tíma en liðið í dag er ekki í sama klassa. Írinn gagnrýndi Arsenal-liðið í enskum miðlum í gær eins og Martin Keown, fyrrum leikmaður Arsenal, sem var líka harðorður eins og Roy Keane.  Aftonbladet tók saman.

„Þetta er vandræðalegt. Fyrir mig sem gamlan leikmann liðsins þá skammast ég mín að horfa upp á þetta. Wenger líður örugglega enn verr,“ sagði Martin Keown eftir 2-1 tap Arsenal á móti Östersund en sænska liðið skoraði mörkin sín tvö á 70 sekúndna kafla í leiknum.





Roy Keane var nú ekki þekktur fyrir ást sína á Arsenal þegar hann var fyrirliði Manchester United og það kemur því ekki Arsenal mönnum eflaust ekki á óvart að hann sé að hrauna yfir lið þeirra.

„Þarna er slæmt hugfar, engin orka og enginn vilji,“ sagði Roy Keane við ITV. „Við höfðum séð þetta svo oft hjá Arsenal-liðinu. Þeir fóru í bikarleikinn á móti Nottingham Forest með sama hugarfar og töpuðu. Það er alltaf nóg af afsökunum en leikmenn Arsenal hljóta að gera stuðningsmenn sína klikkaða þessa dagana,“ sagði Keane.

Keane tók sérstaklega fyrir einn af reyndari leikmönnum Arsenal-liðsins sem mætti Östersund í gær.

„Þú vilt að reyndari leikmenn séu góð fyrirmynd fyrir hina en svo sérðu Wilshere bera fyrirliðabandið í liðinu. Ég tel að hann sé ofmetnasti fótboltamaðurinn á plánetunni,“ sagði Roy Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×