Innlent

„Hafi hann ekki þær málsbætur sem endurheimt geta trúnaðartraust þá á hann engan annan kost en að segja af sér“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þegar sá síðarnefndi tók við lyklunum að stjórnarráðinu.
Jóhanna Sigurðardóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þegar sá síðarnefndi tók við lyklunum að stjórnarráðinu. vísir/vilhelm
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og forveri Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í því embætti, segir í færslu á Facebook-síðu sinni að skynsamlegra væri fyrir framsóknarmenn að gefa formanni sínum þau ráð að koma heiðarlega fram við þjóðina og segja undanbragðalaust frá öllum staðreyndum svokallaðs Jómfrúamáls.

Eins og greint hefur verið frá á Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs, á aflandsfélag sem skráð er á Bresku Jómfrúareyjunum, en félagið lýsti kröfum upp á hálfan milljarð í slitabú föllnu bankanna þriggja.

Í kjölfarið hafa vaknað spurningar um hugsanleg hagsmunatengsl forsætisráðherra í tengslum við það ferli sem sneri að uppgjöri slitabúanna og varðandi það hvort siðferðislega rétt hafi verið af forsætisráðherra að leyna því að kona hans ætti eignir í erlendu félagi sem lýsti kröfum í slitabúum.

Sigmundur Davíð hefur alfarið neitað að svara spurningum fjölmiðla um málið en samflokksmenn hans hafa svarað þeim sem gagnrýnt hafa forsætisráðherra og kallað þá meðal annars „ófrægingarlið“og „hælbíta.“ Vísir fjallaði fyrr í dag um skrif framsóknarmanna og deilir Jóhanna fréttinni með skrifum sínum á Facebook:

„Framsóknarmenn úthúða nú öllum sem voga sér að benda á siðferðisbresti forsætisráðherrans í svokölluðu Jómfrúarmáli.

Í anda þess að vinur er sá er til vamms segir væri skynsamlegra hjá framsóknarmönnum að gefa forsætisráðherranum þau ráð að hann kom ærlega fram við þjóðina og flokk sinn og segi undanbragðalaust frá öllum staðreyndum málsins. Hafi hann ekki þær málsbætur sem endurheimt geta trúnaðartraust þá á hann engan annan kost en að segja af sér.

Hálfaumkunarvert er að heyra forsætisráðherra aðeins tyggja að hann ætli ekki að svara fyrir fjármál eiginkonu sinnar. Er líka til of mikils mælst að hann skrifi undir siðareglur ráðherra?“

Framsóknarmenn úthúða nú öllum sem voga sér að benda á siðferðisbresti forsætisráðherrans í svokölluðu Jómfrúarmáli.Í...

Posted by Jóhanna Sigurðardóttir on Monday, 21 March 2016

Tengdar fréttir

Fár í Framsóknarflokknum

Hver Framsóknarmaðurinn á fætur öðrum stígur fram á ritvöllinn og úthúðar öllum þeim sem gagnrýnt hafa forsætisráðherra.

Þingmenn ræða vantraust á Sigmund

Formaður Bjartrar framtíðar segir koma til greina að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherra. Ástæðan er upplýsingar sem birtust um fjármál eiginkonu ráðherrans í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×