Innlent

„Hætt að nenna að tala um Sigmund Davíð og hans uppátæki"

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Þingmaður Framsóknarflokksins segir það verða koma í ljós hvort nýstofnað Framfarafélag Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar komi til með að kljúfa Framsóknarflokkinn. Aðeins einn af núverandi þingmönnum flokksins mætti á fund félagsins í dag.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins var gestur Heimis Más Péturssonar á Víglínunni á Stöð 2 í dag, ásamt Páli Magnússyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.Eygló var spurð hvort hið nýstofnaða félag Sigmundar Davíðs myndi kljúfa Framsóknarflokkinn.

„Ég sagði það einhvern tímann að ég væri nú hætt að nenna að tala um Sigmund Davíð og hans uppátæki. Það verður bara einfaldlega að koma í ljós hver þessi tilgangur Sigmundar Davíðs er með þetta,“ sagði Eygló Harðardóttir í þættinum Víglínan sem var á Stöð 2 í dag.

Við kynningu á Framfarafélaginu hefur Sigmundur Davíð sagt að hann hafi ekki haft neinn vettvang innan Framsóknarflokksins til að kynna sín mál og því hafi hann stofnað félagið.

„Það er engum bannað að tala innan Framsóknarflokksins og það kom svo sem líka fram ákveðin gagnrýni á ágætis hugveitu sem ég og Páll Magnússon eigum aðild sem heitir alþingi þar sem er einmitt lýðræðisleg og skemmtileg umræða um margvísleg efni en hins vegar skiptir máli að menn leggi sig fram og vinni vel og mæti og taki þátt í þeirri lýðræðislegu umræðu sem er þar,“ sagði Eygló.

Framfarafélagið var stofnað fyrsta maí síðastliðinn. Þeir sem mættu á fyrsta fund félagsins í dag kom víða að, meðal annars úr pólitíkinni. Einn af stofnfélögum félagsins og samherji Sigmundar Davíðs úr Framsóknarflokknum segist ekki geta sagt hvert starf félagsins komi til með að leiða það.

Eru þetta fyrstu skrefin þín í endurkomu inn í pólitíkina?



„Ég fór aldrei neitt. Ég er í Framsóknarflokknum og hef ákveðin réttindi þar sem fyrrverandi þingmaður, þannig að ég fór ekki neitt, en ég er hér í dag,“ segir Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og einn af stofnfélögum í Framfarafélaginu.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknar var einnig á fundinum í dag en hann segist ekki halda að hið nýstofnaða félag komi til með að kljúfa Framsóknarflokkinn.

„Það eru vandræði í  flokknum okkar, við vitum það. Þetta er ekki til þess að kljúfa það eða dýpka það það á neinn hátt heldur er þetta fyrst og fremst til þess að hafa hér öfluga og góða umræðu,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson.

Gunnar Bragi segir að þrátt fyrir það sem á undan sé gengið hjá Sigmundi Davíð sýni viðbrögðin við hinu nýstofnaða félagi að fólk vilji heyra það sem hann hefur að segja.

„Ég held hins vegar að þetta sé svona merki um það að Sigmundur á sér dygga stuðningsmenn langt út fyrir Framsóknarflokkinn,“ segir Gunnar Bragi.

 


Tengdar fréttir

Eygló: „Það er enginn einn sem getur verið stærri en flokkurinn“

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir það einfaldlega verða að koma í ljós hver sé raunverulegur tilgangur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar með stofnun Framfarafélagsins sem sett var formlega á laggirnar í dag. Ljóst sé að enginn einn einstaklingur geti verið stærri en flokkurinn.

Segir félagið ekki nýjan stjórnmálaflokk

"Nei, ég er ekki að stofna nýjan flokk,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, aðspurður en hann boðaði í gær stofn­un nýs fé­lags, Fram­fara­fé­lags­ins.

Húsfyllir hjá Framfarafélaginu

Framfarafélagið er stofnað í kjölfar nýliðins miðstjórnarfundar Framsóknarflokksins en þar virðist lengi hafa ríkt nokkur ólga um framtíð Sigmundar innan flokksins.

Sigmundur Davíð stofnar nýtt félag

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur tilkynnt um stofnun nýs félags, Framfarafélagsins, sem á að skapa öflugan vettvang fyrir frjálsa umræðu, fræðslu og framsetningu hugmynda og lausna.

Segist ekki vera að máta sig í borgarstjórastólinn

Stofnfundur Framfarafélagsins hófst nú klukkan ellefu í morgun en félaginu er ætlað að vera hugmyndasmiðja sem á að koma Framsóknarflokknum til aðstoðar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Framfarafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×