Innlent

„Háðulegast af öllu að ríkisstjórnin reyni nú að knýja fram stefnubreytingu í bakherbergjum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Daníel
„Þetta sýnir ríkisstjórn sem að treystir sér ekki í dagsljósið með eigin ákvarðanir,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að Evrópusambandinu.

„Það er sérkennilegt að ríkisstjórn virði ekki skyldu í lögum um samráð við utanríkismálanefnd Alþingis um mikilvæg utanríkismál sem þetta er. Ríkisstjórnin þvælist um eins og skömmustulegur þjófur með ályktanir af þessum toga. Alþingi er búið að samþykkja umboð og það umboð stendur og ríkisstjórnin þarf að þora því að leggja málið fyrir Alþingi á nýjan leik,“ segir Árni Páll. Umboðið sem hann vísar í er þingsályktunartillaga sem Alþingi samþykkti árið 2009.

Sjá einnig: Ísland ekki lengur umsóknarríki að ESB

„Það er ekki á færi ríkisstjórnarinnar að breyta þingsályktunartillögu. Ríkisstjórnin lagði fram þingsályktunartillögu í fyrra og hafði ekki afl til þess að knýja hana í gegn í andstöðu við þjóðina. Það er því háðulegast af öllu að ríkisstjórnin reyni nú að knýja fram stefnubreytingu í bakherbergjum.“

Árni Páll segir að þjóðin eigi að fá að taka ákvörðun um það hvort slíta beri aðildarviðræðunum og segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú niðurstöðu úr kaffispjalli nokkurra manna.

„Þetta hefur enga efnislega þýðingu þegar það liggur fyrir þingsályktun um annað. Hún er enn í fullu gildi í samræmi við allar lýðræðislegar meginreglur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×