Handbolti

„Gróttumarkvörðurinn“ sem stoppaði Gróttu: Nei, ég held að þeir sjái ekki eftir þessu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Jóna Þorsteinsdóttir.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir. Vísir/Stefán
Það stefnir í mjög jafna toppbaráttu í Olís-deild kvenna í handbolta og gott dæmi um það er æsispennandi leikur Hauka og Íslandsmeistara Gróttu um helgina.

Hetja Hauka var markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir, sem er einmitt á láni frá Gróttu. Elín Jóna varði dauðafæri frá Gróttustelpu rétt áður en leiktíminn rann út en hún tryggði Haukum með því stig og þar með toppsæti deildarinnar áfram.

„Þetta var skemmtilegur leikur en það var jafnframt svolítið erfitt að mæta Gróttu. Það var svo öðruvísi að spila á móti stelpum sem ég er búin að æfa með eiginlega alla mína ævi,“ segir Elín Jóna sem varði vel í leiknum eins og hún hefur gert í vetur.

„Auðvitað hefðum við vilja vinna leikinn en stig er alltaf stig,“ segir Elín Jóna.

Elín Jóna varð tvöfaldur meistari með Gróttu í fyrra en þá sem varamarkvörður Írisar Bjarkar Símonardóttur. Hún samdi síðan við Gróttu í haust en fór um leið á láni í eitt ár til Haukanna.

„Íris er frábær markvörður og það er erfitt að reyna að skáka hana út. Það var flott hjá Gróttu að leyfa mér að fara á láni af því að mig vantaði reynslu. Mér fannst ég vera nógu góð til að vera fyrsti markvörður og vantaði bara reynsluna af því að fá að spila. Það var rosalega gott tækifæri fyrir mig að fá að fara til Hauka,“ segir Elín Jóna. En ætli Gróttufólkið sjái eftir þessu nú þegar hún sá til þess að hennar gömlu liðsfélagar fengu bara eitt stig um helgina?

„Nei ég held að þeir hafi ekkert séð eftir þessu. Þeir eru bara sammála mér í því að ég þurfi reynslu. Ég á að fara aftur í Gróttu á næsta ári,“ sagði Elín og hún hefur þegar sótt mikið til Írisar þegar þær æfðu saman hjá Gróttu.

„Íris hefur alltaf verið fyrirmyndin mín frá því að ég var yngri,“ viðurkennir Elín. En sögðu Gróttustelpurnar eitthvað við hana í leikslok?

„Lovísa (Thompson) kom allavega til mín eftir leik. Hún var ekkert rosalega ánægð en ekkert rosalega svekkt heldur. Þetta voru svolítið blendnar tilfinningar,“ segir Elín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×