Fótbolti

„Fólk getur skipulagt jarðarförina mína en það verður enginn þar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Buffon ver vítaspyrnu Alexandres Lacazette.
Buffon ver vítaspyrnu Alexandres Lacazette. vísir/getty
Gianluigi Buffon átti frábæran leik í marki Juventus þegar liðið vann 0-1 útisigur á Lyon í Meistaradeild Evrópu í gær.

Buffon varði m.a. vítaspyrnu frá Alexandre Lacazette og átti stærstan þátt í því að Juventus hélt hreinu, þrátt fyrir að liðið hafi leikið einum færri síðustu 36 mínútur leiksins.

Buffon hefur legið undir gagnrýni vegna frammistöðu sinnar í undanförnum leikjum en hann svaraði þeim gagnrýnisröddum með stórleik í gær.

„Fólk getur skipulagt jarðarförina mína en það verður enginn þar,“ sagði Buffon í viðtali eftir leikinn í Lyon í gær.

„Ég hef margoft sagt, án nokkurs hroka, að ég er mjög gagnrýninn á sjálfan mig og þarf ekki að hlusta á aðra sem nýta sér aðstöðuna til vera ósanngjarnir og sýna öðrum vanvirðingu.“

Buffon segir að hann sé fullmeðvitaður um að hann þurfi að spila betur en hann hefur gert að undanförnu.

„Ég hef heyrt margt heimskulegt undanfarnar vikur en bara eina athugasemd sem eitthvað vit er í: „Ég býst við meiru af Buffon.“ Það er satt og ég er fullkomlega sammála því,“ sagði hinn 38 ára gamli Buffon.

Juventus er á toppi H-riðils í Meistaradeildinni með sjö stig eftir þrjár umferðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×