Innlent

"Fólk er að skila sér aftur"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Starfsmannastjóri Landspítalans segist aðeins vita um eitt tilfelli þess að hjúkrunarfræðingur ætli ekki að snúa aftur til vinnu.

Hjúkrunarfræðingar höfðu til miðnættis í gær til þess að draga uppsögn sína tilbaka vildu þeir ekki eiga á hættu að missa af allt að sextíu þúsund króna álagsgreiðslu.

Ekki liggja fyrir tölulegar upplýsingar um hve margir hafi dregið uppsögn sína tilbaka. Erna Einarsdóttir, starfsmannastjóri Landspítalans, segist ekki hafa fengið tölur frá öllum deildum auk þess sem hún sé ekki búin að taka þær upplýsingar sem fyrir liggja saman.

„Aftur á móti veit ég það að fólk er að skila sér aftur og ætlar að vera með okkur," segir Erna.

Hún segist vera komin með tölur af sex eða sjö deildum og útlitið sé gott.

„Á mörgum deildum hef ég fengið fréttir af því að allir hafi dregið uppsögnina sína tilbaka. En ég er ekki komin með tölurnar," segir Erna. Hún veit aðeins um eitt tilfelli þess að hjúkrunarfræðingur ætli ekki að snúa aftur til starfa.

„Ég er bara komin með sex eða sjö deildir þar sem allir hafa dregið tilbaka nema þessi eini," segir Erna. „Þetta lítur bara vel út."


Tengdar fréttir

Telur fólk nokkuð sátt við tilboð

Nýr stofnanasamningur á Landspítalanum færir hjúkrunarfræðingum á bilinu fimm til 9,6 prósenta launahækkun, en samningurinn var undirritaður á þriðjudag og kynntur á tveimur fundum í gær.

Hjúkrunarfræðingar farnir að draga uppsagnir til baka

Hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum eru farnir að draga uppsagnir sínar til baka eftir að nýr stofnanasamningur var undirritaður í fyrrakvöld. Þeir hafa frest til miðnættis til að gera upp hug sinn vilji þeir fá allt að sextíu þúsund króna álagsgreiðslu.

Enn óvíst hversu margir hafa dregið uppsagnir til baka

"Þetta skýrist allt á morgun," segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga. "Deildar- og starfsmannastjórar vinna nú að því að taka saman hversu margir hafa dregið uppsagnir sínar til baka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×