Innlent

„Fólk á rétt á því að vera með friðsamleg mótmæli“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hluti hópsins við Hæstarétt í dag.
Hluti hópsins við Hæstarétt í dag. vísir/kolbeinn tumi
„Það er greinilegt að dómurinn telur að lögreglan hafi farið offari,“ segir Gunnsteinn Ólafsson, einn níumenninganna sem ákærðir voru fyrir mótmæli í Gálgahrauni í október 2013. Héraðsdómur Reykjaness hafði dæmt þá til 100 þúsund króna sektargreiðslu á mann en Hæstiréttur frestaði í dag ákvörðun refsinga þeirra og falla þær niður að tveimur árum liðnum haldi níumenningarnir skilorð.  

Gunnsteinn segist ekki vera fullkomlega sáttur þar sem hann hefði viljað fá sýknu.

 

„Það var algjörlega farið yfir öll siðferðileg mörk í réttarfari en þeir líta samt greinilega á þetta sem brot hjá okkur því við fáum tveggja ára skilorð. Ef við höldum það hins vegar þá fellur öll refsing niður þannig að það segir okkur að þetta var þá í rauninni ekkert brot.“

Niðurstaðan ákveðinn léttir

Hann segir ekkert ákveðið í því hvort að níumenningarnir ætli aftur í Gálgahraun til mótmæla.

„Við settum mark okkar á þessa umræðu að það ætti ekki að vaða yfir svæði sem væri búið að friða og vildum bara sýna það að almenningur á Íslandi lætur ekki bjóða sér svoleiðis,“ segir Gunnsteinn sem segir að þau hafi jafnvel átt von á því að Hæstiréttur myndi með dómi sínum þeir sem mótmæli friðsamlega geti átt von á því að vera dæmdir.

„En það er ekki þannig hjá Hæstarétti í dag. Hæstiréttur segir fólk á rétt á því að vera með friðsamleg mótmæli, að minnsta kosti að vissu marki, fyrst þeir fella niður refsinguna.“

Gunnsteinn segir að niðurstaða Hæstaréttar sé ákveðinn léttir.

„Þeir hlustuðu á okkar rökstuðning. Hingað til höfum við aðeins upplifað það að það hefur alltaf verið dæmt gegn okkur, í öllum málum sem við höfum fitjað upp á, við höfum alltaf verið dæmd röngu megin við línuna en núna er viðurkennt að við eigum okkur málsbætur og við erum ánægð með það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×