Viðskipti innlent

„Felur í sér gríðarlega mismunun“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landsambands íslenskra útvegsmanna.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landsambands íslenskra útvegsmanna. Vísir/Pjetur og Arnþór
Forstjórar tveggja af stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins saka Seðlabanka Íslands um að halda uppi fölsku gengi íslensku krónunnar. Krónan sé óeðlilega sterk og það dragi úr tekjum sjávarútvegsfyrirtækja. Framkvæmdastjóri LÍÚ segir það skipta máli fyrir atvinnulífið í heild sinni að gengi íslensku krónunnar sé rétt skráð.

Eiríkur Tómasson, forstjóri Þorbjarnar HF, og Vilhjálmur Vilhjálmur, forstjóri HB Granda eru harðorðir í garð Seðlabankans í samtali við bandarísku fréttaveituna Bloomberg. Þeir segja gengi íslensku krónunnar vera úr takti við raunveruleikann.

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landsambands íslenskra útvegsmanna, tekur undir orð Eiríks og Vilhjálms. „Við hljótum að leggja áherslu á það að gengi sé rétt skráð. Sjávarútvegurinn er gríðarlega háður því hvert gengið á gjaldmiðlinum er,“ segir Kolbeinn.

Bloomberg bendir á í umfjöllun sinni að evran kosti aðeins 155 krónur hérlendis en 239 krónur erlendis. „Ein birtingamyndin er þessi. Það er tvöfalt skráð gengi á íslenska krónu sem skapar ástand sem felur í sér gríðarlega mismunun eftir því hvort að þú ert að búa til gjaldeyri í gegnum þína reglulega starfsemi, líkt og sjávarútvegurinn gerir, eða öðrum aðilum hleypt hér inn í landið með krónur á allt öðru gengi. Þetta er birtingarmynd þessara gjaldeyrishafta sem er vonlaust að búa við,“ bætir Kolbeinn við.

Kolbeinn kallar eftir skýrri stefnu stjórnvalda. „Það þarf að marka skýra stefnu í því hvernig á að aflétta þessum höftum þannig að allir sitji við sama borð og að gengi gjaldmiðilisins sé rétt skráð. Stöðugleiki þarf að ríkja til framtíðar í gjaldeyrismálum.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×