Innlent

„Fáránlegt að ríkið sé með hendurnar í vösum öryrkja, eldri borgara og láglaunafólks“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Ég er ekki nógu gamall til að verða forseti þannig ég skellti mér í þennan slag fyrst. Ég á forsetann bara inni,“ segir Guðmundur Ari Sigurjónsson einn frambjóðenda til embættis formanns Samfylkingarinnar. Guðmundur var gestur Frosta og Mána í Harmageddon í dag.

Guðmundur er 27 ára tómstunda- og félagsmálafræðingur og hefur átt sæti í bæjarstjórn Seltjarnarness undanfarin tvö ár. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér þegar hann tilkynnti um framboð sitt kom fram að hann vill hjálpa flokknum að finna gleði sína á ný.

„Flokkurinn hefur staðið sig ágætlega í því að gagnrýna aðra en lítið verið í því að leggja mál fram sjálf,“ segir Guðmundur. Hann segir að stærstu málin í dag séu heilbrigðismál og húsnæðismál og að einmitt þar eigi jafnaðarmenn að vera leiðandi í að finna lausnir.

„Ég tel mikilvægt að flokkur jafnaðarmanna sé til og að undanförnu hafi Samfylkingin ekki talað nægilega vel fyrir jafnaðarstefnunni. Ég vil að sá flokkur berjist fyrir því að valdefla fólk sem minna má sín í samfélaginu.“

Óttast ekki reynsluboltana

Guðmundur segir að pólitíkin snúist öll um forgangsröðun. Eitt af hans stærstu stefnumálum sé að persónuafslátturinn sé hækkaður ríflega. „Það er fáránlegt að ríkið sé með hendurnar í vösum hjá öryrkjum, eldri borgurum og láglaunafólki. Að ríkið sé að taka peninga frá fólki sem er jafn vel í basli með mat og húsnæði. Auðvitað á maður að taka pening þar sem mestur er. Þeir sem eiga peninga eiga að borga meiri pening í skatt.“

Íbúar Seltjarnarness hafa í gegnum tíðina verið þekktir fyrir að merkja við Sjálfstæðisflokkinn á kjördag. „Þegar ég tók þátt í bæjarstjórnarkosningum fyrir tveimur árum þá kom í ljós að það eru mun fleiri jafnaðarmenn en þeir sem kjósa Samfylkinguna. Með því að tala í lausnum ,og um málefni en ekki endalausa flokkadrætti, þá var meirihlutinn nærri fallinn.“

Meðal þeirra sem boðið hafa sig fram til embættisins eru þingmennirnir Helgi Hjörvar og Oddný G. Harðardóttir ásamt fyrrum þingmanninum Magnúsi Orra Schram. Núverandi formaður, Árni Páll Árnason, hefur verið orðaður við framboð en ekkert liggur enn fyrir. Guðmundur segist ekki hræddur við að taka slaginn við þessa reynslubolta.

„Það eru tveir mánuðir í kosningu og ég þarf bara að kynna mig og mín málefni fyrir flokksmönnum. Ég tel það vera styrkleika að koma ferskur inn í staðnaðan flokk og að vera ekki litaður af pólitískum þingferli,“ segir Guðmundur.

Viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Vill endurnýja forystu Samfylkingarinnar

Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður, býður sig fram til formanns Samfylkingarinnar í komandi formannskjöri. Hann vill fara aftur á þing og hefur fulla trú á því að hægt verði að rétta fylgi Samfylkingarinnar við.

Helgi Hjörvar boðar breytingar og ætlar sjálfur í formanninn

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, segir flokk sem hefur misst tvo þriðju fylgis síns þurfa að vera opinn fyrir öllum hugmyndum. Hann ætlar að bjóða sig fram sem formann á landsfundi. Hann ræðir pólítíkina, augnsjúkdóminn og ballettferilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×