Viðskipti innlent

„Erum ægilega stoltir og auðmjúkir“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ragnar Eiríksson, yfirkokkur á DILL.
Ragnar Eiríksson, yfirkokkur á DILL. mynd/Karl Petersson

„Þetta er náttúrulega mikil viðurkenning og við erum ægilega stoltir og auðmjúkir yfir þessu,“ segir Ragnar Eiríksson, yfirkokkur á veitingastaðnum DILL, sem er við Hverfisgötu 12 í Reykjavík.

Staðurinn fékk í dag Michelin-stjörnu sem er sú viðurkenning sem veitingastaðir um allan heim keppast um að fá. Enginn annar staður á Íslandi er með Michelin-stjörnu.

Ragnar er vonum ánægður með viðurkenninguna.mynd/benedikt

„Þetta er alveg frábært og gerir rosalega mikið fyrir bransann í Reykjavík og á Íslandi og veitir okkur skemmtilega athygli – öllum kokkum í bransanum,“ segir Ragnar, en hann tók sjálfur við verðlaununum í Stokkhólmi í morgun.

DILL hefur hlotið margs konar viðurkenningar og nokkrum sinnum verið valinn besti veitingastaður Íslands á listum á borð við White Guide Nordic, Nordic Prize og víðar. Ragnar tók við stöðu yfirkokks í árslok 2015 þegar annar stofnenda staðarins, Gunnar Karl Gíslason, flutti af landi brott til að standsetja veitingastaðinn Agern á Grand Central Terminal í New York, í samstarfi við Claus Meyer.

Ragnar segir þetta mikinn heiður fyrir íslenska matarmenningu, enda stærsta viðurkenning sem veitingastaðir geta fengið. „En við höldum okkar striki. Höldum áfram að bjóða upp á góðan mat og veita góða upplifun.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×