Innlent

„Erfitt að sjá fullorðna og börn deyja í massavís“

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Magna er nú í stuttu stoppi á Íslandi þar sem hún heldur námskeið fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
Magna er nú í stuttu stoppi á Íslandi þar sem hún heldur námskeið fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Vísir/Valli
Magna Björk Ólafsdóttir hefur starfað á vegum Rauða krossins á Íslandi í alþjóðlegu teymi sem vinnur gegn útbreiðslu ebólufaraldursins í Síerra Leóne. Hún er nú í stuttu stoppi á Íslandi þar sem hún heldur námskeið fyrir viðbragðsteymi Landspítalans vegna ebólu.

Í Síerra Leóne vann hún við fræðslu til þess að reyna að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu faraldursins. Ebólufaraldurinn sem geisar nú í Vestur-Afríku er talinn sá stærsti hingað til og erfitt hefur reynst að koma í veg fyrir smit.

Magna var í eldlínunni og segir ástandið slæmt en er sannfærð um að það geti náðst að stoppa faraldurinn sé rétt staðið að. Neyðin sé mikil og sjálfboðaliðar rekist á marga veggi í starfi sínu. Fólk sé oft hrætt við sjálfboðaliðana og afneitun vegna sjúkdómsins sé mikil.

„Þarna kemur þetta upp á þessu strjálbýla svæði þar sem fólk þekkir ekki sjúkdóminn og er í vissri afneitun fyrir honum. Við brugðumst líka ansi seint við, þetta komst á gott skrið áður en alþjóðleg aðstoð tók að berast. Það er gerlegt að stoppa þetta. Við þurfum bara gífurlega mikið af hjálparstarfsmönnum og peningum. Það þarf meiri peninga og líka góða stjórnun yfir þessu öllu saman.“

Hún hefur horft upp á marga lúta í lægra haldi fyrir sjúkdómnum og segir það vissulega erfitt þótt hún sé búin að koma sér upp sterkum skráp.

„Dauðinn er aldrei skemmtilegur. Það er mjög erfitt að sjá fullorðna og börn deyja í massavís. En þetta er vinna og á ákveðnum tímapunkti verður þú að líta á þetta sem vinnu til þess að ná ákveðnum markmiðum. Ef þú gerir það ekki þá ertu bara heima grátandi upp í herbergi og það er ekkert gagn að þér,“ segir Magna.

Undanfarna mánuði eða frá því hún kom frá Síerra Leóne þá hefur hún starfað í Sviss þar sem hún hefur umsjón með námskeiðum fyrir sendiboða á leið til starfa. „Ég var kölluð heim vegna þess að hlutirnir voru mjög óráðnir hérna á Íslandi og ekki aðstaða til þess að taka við mér ef ég myndi smitast. Þá fór ég til Sviss til að vera þar í 21 dag sem er meðgöngutíminn þar til sjúkdómurinn kemur fram. Í kjölfarið fór ég í þjálfun hjá Læknum án landamæra í Belgíu og svo þróaðist það út í það að þörfin fyrir þjálfun var mikil, ég var á staðnum og fór að sinna henni.“

Magna hefur frá árinu 2010 verið víða um heim í hjálparstarfi. Meðal annars á Haítí, Kenýa og Írak. Hún segist sjaldan óttast aðstæður eða að eitthvað komi fyrir sig enda gefist ekki tími í það þar sem neyðin sé svo mikil.

„Ég hafði ekki tíma til þess að vera hrædd. Það komu alveg stundir, sérstaklega í enda dags þegar maður var kominn í ró að þá poppaði upp í höfðinu á mér hvort ég hefði nokkuð gleymt að þvo mér í klór eftir daginn, hvort ég hefði gert einhver mistök. Það er algengt að fólk leggist upp í rúm á kvöldin og reki slóðina yfir daginn,“ segir hún.

Fjölskylda Mögnu er heima á Íslandi og segir hún að þótt þau óttist vissulega um hana þá virði þau störf hennar. „Þau eru alltaf hrædd um mig þegar ég fer en þau eru ótrúlega stuðningsrík og virða það að þetta er það sem ég vil. Ég held að það sé oft erfiðara fyrir þau en mig. Þau sitja eftir og hlusta á fréttir á meðan ég sé hvernig þetta er í raunveruleikanum. En ég reyni að vera dugleg að láta þau vita af mér.“

Magna heldur aftur til Sviss eftir helgi þar sem hún heldur áfram að kenna á námskeiðum. Hún vonast þó eftir að geta farið aftur út. „Þar er þörfin mest,“ segir hún og er staðráðin í að halda áfram í hjálparstarfi.

„Þetta er það sem drífur mig áfram og það sem ég vil gera.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×