Innlent

„Eldri konur eru bestu starfskraftarnir“

Atli Ísleifsson skrifar
Bæjarins beztu opnar nýjan stað í Kringlunni í byrjun desembermánaðar.
Bæjarins beztu opnar nýjan stað í Kringlunni í byrjun desembermánaðar. Vísir/Stefán
„Það var nú bara góðlátlegt grín. Okkur vantar eldri konur sem eru duglegar að þrífa. Þær eru yfirleitt bestu starfskraftarnir í þessi verkefni. Það er reynsla mín úr pylsuvagninum,“ segir Baldur Ingi Halldórsson, framkvæmdastjóri Bæjarins beztu, sem birti fyrr í vikunni auglýsingu á Facebook-síðu Bæjarins beztu þar sem auglýst er eftir starfskrafti „með reynslu af þrifum, jafnvel úr Stjórnarráðinu til að þrífa einn af stöðunum okkar.“

Baldur Ingi segir auglýsinguna alls ekki vera einhver sérstök skilaboð til stjórnvalda. „Þetta er alls ekki illa meint. Okkur þótti þetta bara fyndið þar sem þessar konum vantar sennilega vinnu. Við höfum ekki neina sérstaka skoðun á ríkisstjórninni.“ Hann segist enn ekki hafa fengið sérstök viðbrögð við auglýsingunni.

Baldur Ingi segir fyrirtækið nú vinna að opnun nýs staðar í Kringlunni og þess vegna sé verið að leita að nýju fólki. „Framkvæmdir hófust í síðustu viku og til stendur að opna í byrjun desember. Þetta er á Stjörnutorgi og við opnum þar sem áður var Grillhúsið. Það er verið að skipta því rými í tvö og við verðum í öðru þeirra, en hamborgarastaður í hinu.“

Sé Ferðavagninn talinn með er þetta sjötti staðurinn sem opnar undir nafni Bæjarins beztu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×