Lífið

"Ekki allir sem þora að opna kjaftinn en ég hef engu að tapa“

Atli Ísleifsson skrifar
„Það eru ekki allir sem þora að opna kjaftinn en ég hef engu að tapa. Launin eru ekki það há að ég hafi einhverju að tapa,“ segir Jónína Björg Magnúsdóttir, frægasta fiskverkunarkona landsins, sem hefur vakið mikla athygli fyrir baráttusöngva sína fyrir bættum kjörum, þar á meðal lagið Sveiattan.

Jónína hefur nú fengið Bubba Morthens með sér í lið og fylgdust liðsmenn Íslands í dag með þegar Jónína og Bubbi tóku saman upp lag.

Jónína, eða Nína eins og hún er jafnan kölluð segir að hún hafi fengið margar áskoranir um að fá Bubba með sér í stúdíó. „Ég hugsaði að ef ég spyr einhvern frægan eða ófrægan þá segir viðkomandi já eða nei. Ég þarf bara að spyrja. Þetta gekk eftir.“

Vill mannsæmandi laun og borga sína skatta

Texti lagsins fjallar um samskipti yfirmanns og undirmanns í kjaraviðræðum.

Jónína segir það vera slæmt ef fólk hugsi þannig að það geti allt eins verið á atvinnuleysisbótum. „Ég vil hafa mannsæmandi laun, borga mína skatta, og geta þá lagt í púkkið fyrir þá sem eru atvinnulausir, eða öryrkjar, sama af hvaða ástæðu það er. Nú er ég ekki bara að fara að stúta HB Granda, heldur almennt. Þetta er dauðans alvara þó að maður byrji í einhverju djóki, og textinn hafi orðið til fyrir einhverju ári síðan, að þá er þetta ekkert grín,“ segir Jónína.

Sjá má innslag Íslands í dag að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×