Enski boltinn

„Eitthvað lyktar illa hjá Liverpool“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það verður pressa á Brendan Rodgers, segir Shearer.
Það verður pressa á Brendan Rodgers, segir Shearer. vísir/getty
Alan Shearer, markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi, telur að sömu fjögur liðin berjist um efstu fjögur sætin í ensku úrvalsdeildinni og á síðustu leiktíð.

Shearer, sem starfar í dag sem sparkspekingur BBC, segir í úttekt vefsíðu BBC, að Manchester-liðin, Chelsea og Arsenal verði í baráttunni en ekkert endilega í sömu röð og á síðustu leiktíð.

Bestu liðin hafa verið að bæta við sig mönnum og sá dýrasti er enska ungstirnið Raheem Sterling sem fór til Manchester City frá Liverpool fyrir 49 milljónir punda.

„Raheem er ekki 49 milljóna punda virði. Hann er góður leikmaður sem getur orðið betri og er eldfljótur. Hann þarf samt að bæta sig á mörgum sviðum. Mun hann bæta sig hjá City? Já. En er hann peninganna virði? Nei,“ segir Shearer, en hvað um Arsenal og United?

Petr Cech verður góður fyrir Arsenal, segir Shearer.vísir/getty
Það verður pressa á Rodgers

„Cech verður frábær fyrir Arsenal og vinnur mikið af stigum fyrir liðið. Arsenal vantar samt heimsklassa framherja til að taka annað skref í átt að titlinum.“

„Það er enn verk að vinna hjá Manchester United. Það er ekki mikill munur á milli Manchester-liðanna og þau keppast við Chelsea allt mótið. Mér finnst United samt vanta 1-2 leikmenn í viðbót,“ segir Shearer.

Liverpool hafnaði í sjötta sæti á síðustu leiktíð og aftur hefur Brendan Rodgers fengið að versla. Hann er búinn að kaupa Roberto Firmino og Christian Benteke auk þess sem hann fékk James Milner á frjálsri sölu.

Þá gerði Rodgers breytingar á þjálfaraliðinu, en aðstoðarstjórinn Colin Pascoe og aðalliðsþjálfarinn Mike Marsh eru farnir frá Liverpool.

„Brendan er aftur að eyða fullt af peningum. Hann verður að vinna eitthvað í ár,“ segir Shearer.

„Svo er það hvernig þessar breytingar urðu á þjálfaraliðinu. Mér finnst skrítið að þú rekir þína hægri hönd til margra ára bara vegna þess að liðið stóð sig ekki nógu vel og segir félagið vilja gera tæknilega breytingu.“

„Þetta lítur skringlega út fyrir mér. Eitthvað lyktar illa hjá Liverpool. Brendan verður undir mikilli pressu,“ segir Alan Shearer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×