Lífið

"Einn magnaðasti tímapunktur lífs míns“

Ellý Ármanns skrifar
Christel Ýr Johansen, 20 ára, landaði fyrsta sæti á Íslandsmóti IFBB í flokknum Módelfitness kvenna -163 sem fram fór í Háskólabíó um helgina. 

„Mér gekk rosalega vel á Íslandsmóti IFBB, ég hafnaði fyrsta sæti af nítján stórglæsilegum stelpum. Ég bjóst alls ekki við þessu enda rosalega sterkur flokkur. Tilfinningin er algjörlega ólýsanleg. Ég myndi segja að þetta hafi verið einn magnaðasti tímapunktur lífs míns. Það var svo mikil gleði, bros og tár á sama tíma og ég fór að sofa skælbrosandi og vaknaði með brosið ennþá pikkfast,“ segir Christel spurð um sigurinn.

Af hverju byrjaðir þú að lyfta? „Ég hef verið í íþróttum frá þriggja ára aldri og þá aðallega dansi. Ég byrjaði í dansi hjá Dansstúdíó World Class og með því fylgdi aðgangur í allar World Class stöðvarnar og út frá því byrjaði ég að mæta og lyfta.“ 

„Ég æfði nokkrum sinnum í viku í Laugum og með tímanum fór maður að kannast meira og meira við fólkið sem var þarna alla daga. Þá voru fjórar stelpur sem æfðu hjá honum Konna sem voru í keppnisundirbúningi sem ég tók mikið eftir sem mér þóttu alveg rosalega flottar og út frá því skellti ég mér að horfa á mótið sem heillaði mig alveg upp úr skónnum. Þá var þetta orðið að draumi.“ 

„Ég fór í dansnám í Íþróttaskóla í Danmörku og tók lyftingar sem aukafag þar. Eftir skólann flutti ég til Kaupmannahafnar og fyrsta sem ég gerði var að byrja í fjarþjálfun og æfa á fullu því mig langaði að koma heim til Íslands og keppa. Þegar það styttist í mitt fyrsta mót, sem var bikarmót 2012, ákvað ég að flytja aftur til Íslands og byrjaði í þjálfun hjá honum Konna og lét stóra drauminn minn rætast.“ 

Christel og kærasti hennar Hlynur Kristinn Rúnarsson.
„Ég er nýfarin af stað með fjarþjálfunarsíðu á Facebook ásamt kærastanum mínum en slóðin er Facebook.com/bestithjalfarinn og svo erum við að opna vefsíðu sem er Thjalfarinn.com,“ útskýrir Christel.

Getur léttilega dottið ofan í nammipokann

Hvernig er að trappa sig niður eftir svona mikið átak fyrir mót? „Vaninn eftir mót hjá mér er að fara með mínum nánustu út að borða þar sem ég fæ mér eitthvað rosalega gott að borða og eftirrétt, næstu tveir dagar fara vanalega í það að ég leyfi mér að borða góðann mat og svo dett ég aftur í rútínu. Satt að segja þá fæ ég alveg upp í kok og fer að „kreiva“ í eitthvað hollt aftur. Í svo kölluðu „off season“ þá æfi ég einu sinni á dag og hvíli oftast á sunnudögum. Ég passa mig að borða hollt en ég leyfi mér alveg það sem mig langar í líka. Ég viðurkenni alveg að ég er rosalegur sælkeri og get sko alveg léttilega dottið ofan í nammipokann,“ segir Christel. 

Hér er hún með Konna þjálfaranum sínum.
Þjálfarinn býr til prógrómm

Þegar talið berst að undirbúningi fyrir mót eins og Íslandsmótið segir Christel:  „Það tekur langan tíma í að koma sér í form fyrir þessi stóru mót. Á niðurskurðartímabilinu sem eru sirka tólf vikur fyrir mót er ég að æfa ellefu sinnum í viku og þarf að passa að borða alltaf „rétt“ en ég fæ alltaf rosalega skemmtileg prógrömm frá þjálfaranum mínum, Konráð Val Gíslasyni, sem ég fer 100% eftir.“

Hér er ég með mömmu, Kristínu Karólínu, og systur minni Söru Dögg.
Margir standa þétt við bakið á mér

„Svo er ég með marga sem standa þétt við bakið á mér, kærastinn minn, fjölskyldan, vinir og styrktaraðilar sem eiga stóran part í þessu hjá mér. Fyrir þetta mót mætti segja að ég hafi verið að í frekar langan tíma þar sem ég keppti á Bikarmóti IFBB í nóvember þar sem ég hafnaði í öðru sæti en ég fékk litla hvíld eftir það þar sem niðurskurður hófst fyrir Arnold Classic USA sem var haldið í Ohio í lok febrúar síðastliðinn og út frá því ákvað ég að keppa á Íslandsmótinu. Þetta tekur auðvitað á bæði andlega og líkamlega en þetta er orðið meira að lífstíl hjá mér og ég hef rosalega gaman af þessu.“

„Þessi mynd var tekin í febrúar fyrir Arnold Classic mótið í Bandaríkjunum.“Mynd/Arnór Halldórsson
Mikilvægt að hafa trú 

 „Mig langar að nota tækifærið og þakka öllum sem hafa stutt við bakið á mér.  Vinir, fjölskylda og styrktaraðilarnir mínir eins og Iceland fitness – ifitness.is, Fitness Sport, Hárlengingar.is, Jan Tana, Serrano, förðun Sara Johansen, Beautynails og hár, World Class Laugar Spa, Via health Stevia og Kiss Kringlunni. Það sem mér finnst skipta miklu máli í öllu því sem maður tekur sér fyrir hendur er að hafa trú á sjálfum sér því það hjálpar manni að ná lengra,“ segir Íslandsmeistarinn að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×