Skoðun

„Einn blár strengur“ - Kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum

Sigrún Sigurðardóttir skrifar
Alþjóðlegar rannsóknir sýna að kynferðislegt ofbeldi í æsku getur haft víðtæk, alvarleg og langvinn áhrif á heilsufar og líðan. Það er útbreitt vandamál á heimsvísu sem hefur áhrif á líf milljóna barna. Heilbrigðismála-, menntamála-, félagsmála- og lagayfirvöld eru hvött til að taka ábyrgð gagnvart því af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Kynferðislegt ofbeldi gegn drengjum er betur falið og minna rannsakað en gegn stúlkum og því flókið að bera saman. Drengir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi upplifa oft fordóma frá samfélaginu og að vera einhvers konar jaðarhópur. Þeir segja sjaldan frá ofbeldi á þeim tíma sem það á sér stað og það tekur þá langan tíma að deila þeirri reynslu, ef þeir gera það á annað borð. Geta þar karllæg gildi, karlmennskuímynd eða staðalímyndir haft áhrif á.

Vandamál sem fylgt geta karlmönnum með slíka reynslu til unglings- og fullorðinsára eru brotin sjálfsmynd, reiði, skömm, einangrun, sektarkennd, sjálfskaðandi hegðun, áfengis- og fíkniefnamisnotkun, afbrot, áhættuhegðun, tilfinningaleg aftenging og flótti frá aðstæðum. Einnig þunglyndi, kvíði, fælni, áfallastreituröskun, sjálfsvígshugsanir, sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg. Karlmenn efast oft um kynhneigð sína eftir slíka reynslu, upplifa vandamál tengd kynferði og brotinni karl­ímynd. Þeir geta glímt við endurminningar sem trufla kynlíf þeirra og taka frekar þátt í áhættusömu kynlífi, glíma við sambands- og hjónabandsvandamál og vinnufíkn.

Einstaklingar sem upplifa ofbeldi í einhverri mynd og segja ekki frá, lifa oft við streitu sem hefur bælandi áhrif á ónæmiskerfið og getur valdið sjúkdómum. Að segja frá ofbeldinu er því mjög mikilvægt fyrir heilsufar og líðan.

Rannsóknir sýna að einn af hverjum sex drengjum verður fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku og er Einn blár strengur átaksverkefni til að vekja athygli á því. Tónlistarmenn setja einn bláan streng í gítar sinn sem stendur fyrir einn dreng af sex. Nemendur á heilbrigðisvísindasiði við Háskólann á Akureyri hafa unnið að verkefninu og verður ráðstefna tengd því í Háskólanum á Akureyri 20. maí 2017. Opnað hefur verið fyrir innsendingu ágripa og Facebook-síða stofnuð.



Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×