Innlent

„Einfaldlega rangt" að hækka þurfi vöruverð vegna launahækkana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir að margt þurfi að ganga upp svo nýgerðir kjarasamningar haldi út samningstímann.

Hún hefur áhyggjur af því að verðhækkanir í landinu muni hafa það í för með sér að kaupmáttaraukning sem átti að fylgja samningunum verði ekki eins og að var stefnt. Það myndi hafa í för með sér að samningar opnast að nýju og að við tæki enn erfiðari samningalota en félagsmenn fengu að kynnast í vor.

„Það er ekki gott þegar maður er að sjá það í fréttum og haft eftir eigendum fyrirtækja þar sem þeir telja að þeir þurfi að hækka vöruverð eða þjónustu hjá sér út af nýgerðum kjarasamningum,“ segir Ólafía í samtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi í morgun og bætir við að það sé „mýta“ að hækka þurfi vöruverð í samræmi við hækkun launa.

„Þetta er bara rangt og oftar en ekki er þetta bara afsökun hjá rekstrareigendunum að gera þetta með þessum hætti,“ bætir hún við.

Ólafía segir að það yrði „mjög slæmt“ ef ekki næðist að standa við kaupmáttaraukningarákvæði nýju kjarasamninganna. Það myndi hafa í för með sér að samningar opnuðust að nýju, aftur yrði sest að samningaborðinu, og andinn yrði allt annar en verið hefur í síðustu samningaviðræðunum.

Þannig er í raun alveg óséð hvort samningarnir haldi að sögn Ólafíu. Hún segir alla verða að vera á tánum ef svo eigi að takast. „Það er ekki alltaf bara við launafólkið sem eigum að bera þá ábyrgð heldur eru það allir sem verða að fylgja þessu eftir svo að þetta gangi upp með þeim hætti sem stefnt var að,“ segir hún ennfremur.

Það komi þó ekki að fullu í ljós fyrr en í febrúar þegar hagtölur liggi fyrir um áhrif samninganna.

Þetta og fleira kom fram í spjalli þeirra Ólafíu og Sigurjóns sem má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×