Innlent

„Eina sem hann hugsar er bara að forða sér“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Rakel Gústafsdóttir, móðir drengs sem ekið var á í Hlíðunum, segir son sinn enn vera að ná sér líkamlega og andlega eftir slysið. „Hann er frekar aumur. Það er í lagi með hann en hann er tognaður á ökkla, mjöðmin marin og getur illa setið,“ sagði hún í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.



Ökumaður bílsins ók af vettvangi og skildi son hennar eftir liggjandi á götunni, á horni Stigahlíðar og Bogahlíðar. „Hann fór ekki í skólann í gær og ekki í dag. Ég veit ekki hvort að ökklinn verði í lagi, þetta er á sin. Hann er óbrotinn og höfuðið slapp, hann náði að verja það. Sem betur fer er í lagi með hann,“ sagði hún.



Sjá einnig: Ökumaður stakk af eftir að hafa ekið á son Rakelar



Fjölskyldan veit lítið um ökumanninn en engin vitni voru að atvikinu. „Nei ekki svo við vitum. Þetta var klukkan níu á sunnudagskvöldi og dimmt og eina sem hann sá var að bíllinn var vínrauður. Hann gat ekki greint neitt númer eða neitt. Eina sem hann hugsar er að forða sér, stendur upp og þá sér hann bara bílinn bakka í burtu og snúa við.“



Drengurinn var að fara yfir götuna þar sem ekki er gangbraut en Rakel segir sonur sinn hafi haldið að bíllin væri að hægja á sér til að hleypa honum yfir götuna. „Honum sýnist hann hægja á sér og telur að hann sé bara að stoppa,“ segir hún. „Svo bara fær hann höggið á sig.“



Rakel segir að ökumaðurinn hljóti að hafa tekið eftir því að aka á drenginn. „Að sjálfsögðu, annars hefði hann ekki bakkað í burtu.“



Sjálf segist hún vera í áfalli yfir því að ökumaðurinn hafi ekið burt af vettvangi. „Það var sjokkið sem ég áttaði mig á seinna meir með kvöldinu,“ segir hún. Fyrst segist hún hafa hugað að syni sínum, kallað til lögreglu og gefið skýrslu. „Svo fór ég að finna fyrir því hvað ég var sár, segir hún.



„Reið og sár yfir því að hann hafi ekki stoppað og gefið barninu gaum, athugað hvort ekki var í lagi og hvað þá að styðja við hann heim. Hann ar haltur labbandi heim 200-300 metra. Þetta er ekki langt en samt; og í þessu sjokki,“ segir Rakel og segir son sinn hafa verið í áfalli eftir slysið. „Hann heldur þegar hann er þarna liggjandi í götunni að bíllinn sé að fara að keyra yfir sig.“



Rakel segir að sonur sinn hafi fyrst verið skelkaður og hissa en eftir að hafa rætt þetta við hann hafi hann áttað sig á hvað hefði gerst. „Þetta brýst út í ýmsu hjá þeim og þau geta ekki alltaf áttað sig á því hvað er en honum leið ekki vel. Svo ætlaði hann að reyna að fara í skólann í morgun en treysti sér ekki,“ segir hún.



„Hann er sjálfur góður, ég hef séð hann gera góðverk bara svona upp úr þurru, veita fólki viðlit sem þarf á því að halda, og ég held að hann sjálfur skilji ekki hvernig manneskja geti bara keyrt í burtu frá svona,“ segir móðirin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×