Innlent

„Ég veit ekkert hvað hann sýndi mörgum þessa mynd“

Birgir Olgeirsson skrifar
Gulli Bergmann.
Gulli Bergmann. Vísir/Facebook.
„Ég fékk loksins að vita það; strákur sem ég þekkti hafði komið með nektarmynd af mér og var að sýna hana um allan skóla,“ skrifar Gulli Bergmann á Facebook í dag þar sem hann lýsir þeirri reynslu þegar nektarmynd af honum var í dreifingu í Valhúsaskóla á tíunda áratug síðustu aldar þegar hann var þrettán ára gamall.

Þegar Gulli mætti í skólann þann dag varð hann var við að hvert sem hann fór var hlegið að honum. Þegar hann fékk loksins að vita hver ástæðan var fann hann fyrir undarlegum sting í hjartað og vöktu svipbrigði hans kátínu hjá nemendum sem hlógu þeim mun meira.

Gulli hafði upp á drengnum sem hafði sýnt nemendum Valhúsaskóla myndina og bað um að fá að sjá hana. Drengurinn neitaði Gulla um það en eftir að hafa lofað að skemma ekki myndina leyfði drengurinn Gulla loksins að sjá hana.

Hótaði að framkalla ótal eintök af myndinni

„Hann sannfærðist loksins á að leyfa mér að sjá hana, með því skilyrði að ef ég myndi skemma hana á nokkurn hátt þá myndi hann láta framkalla ótal eintök af myndinni og dreifa út um allt. Þetta var þrjóskur og framtakssamur strákur og ég vissi að hann myndi standa við orð sín. Skjálfandi tók ég við myndinni. Þarna starði ég framan í sjálfan mig. Á myndinni var ég kviknakinn, með eitthvað asnalegt sigurbros á andlitinu og böllinn í höndinni eins hann væri einhver verðlaunagripur. Þessi mynd hafði verið tekin í einhverjum fíflalátunum og þá með yfirskriftinni að það var “engin filma” í myndavélinni,“ skrifar Gulli sem rétti drengnum myndina aftur og við tóku margir dagar þar sem hann mætti ekki skóla.

Skammaðist sín lengi

Í samtali við Vísi um málið segist Gulli ekki hafa deilt þessari sögu með öðrum áður. „Ég hef aldrei fundið tilefni til þess fyrr eða séð ástæðu,“ segir Gulli sem deilir þessari sögu til að benda á að #freethenipple-átakið hefur haft jákvæð áhrif fyrir það fólk sem hefur staðið í sömu sporum og hann og séð enga leið úr þeim eitt síns liðs. 

„Ég skammaðist mín fyrir þetta svo lengi og var í mörg ár hræddur um að myndin myndi dúkka upp eftir þetta og fólk myndi fara að setja í samhengi við hvar hún hefði verið tekin og af hverju. Svo þegar ég komst yfir það þá skipti það mig engu máli. Þá var það bara eitthvað sem hafði gerst,“ segir Gulli sem lýsir því á Facebook að hann og drengurinn sem deildi myndinni hefðu síðar orðið ágætis félagar.

„Við vorum ekkert mikið að hanga saman en höfðum gert það þegar við vorum yngri. Svo hættum við í raun aldrei að vera vinir. Þá snerti þetta mig ekki lengur,“ segir Gulli sem segir þá ekki hafa rætt þetta atvik eftir að það átti sér stað.

Færsluna má lesa í heild hér fyrir neðan:

Í tilefni af umræðunni undanfarið þá langar mig að deila með ykkur þegar nektarmynd af mér var dreift um allan skólann....

Posted by Gulli Bergmann on Wednesday, April 1, 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×