Enski boltinn

„Ég þyki líklegastur til að verða rekinn“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rodgers fær tækifæri til að koma sínum mönnum aftur á beinu brautina í dag.
Rodgers fær tækifæri til að koma sínum mönnum aftur á beinu brautina í dag. fréttablaðið/getty
Gengi Liverpool á tímabilinu hefur ekki verið upp á marga fiska og stjóri liðsins, Brendan Rodgers, þykir valtur í sessi. Þetta viðurkenndi hann sjálfur á blaðamannafundi í gær.

„Fyrir nokkrum mánuðum var ég knattspyrnustjóri ársins. Í dag þyki ég líklegastur hjá veðbönkum til að verða næsti stjórinn sem missir starfið sitt,“ sagði Rodgers en hið rétta er að hann er reyndar sá þriðji á þeim lista.

„Þetta eru allt fylgihlutir þess yndislega lífs sem fæst með því að starfa í fótbolta,“ bætti hann við. „Það eina sem maður getur gert er að einbeita sér að því verkefni sem er fram undan og þeim hlutum sem maður getur stjórnað.“

Simon Mignolet, markvörður Liverpool, hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína að undanförnu en Rodgers kom honum til varnar. „Við áttum gott spjall í dag og honum líður vel. Hann hefur bjargað okkur í nokkrum leikjum en hann er í álíka góðu formi og liðið sjálft. Við þurfum allir að bæta okkur.“

Liverpool er í tólfta sæti deildarinnar og hefur tapað þremur deildarleikjum í röð. Liðið mætir Stoke á heimavelli á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×