Innlent

"Ég sagði við konugreyið að við hlæjum að þessu eftir hálfan mánuð“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd frá vettvangi í hádeginu.
Mynd frá vettvangi í hádeginu. Mynd/Kristinn Pétursson
Kona varð fyrir því óláni að aka bíl sínum inn í Efnalaugina Mosfellsbæ um hádegisbilið í dag. Mbl.is greyndi fyrst frá en að sögn starfsmanns á vakt í efnalauginni var enginn fyrir meiðslum.

„Ég sagði við konugreyið að við hlæjum að þessu eftir hálfan mánuð,“ segir Dóra Pétursdóttir, starfsmaður í efnalauginni, í samtali við Vísi. Hún telur að konan hafi stigið á bensíngjöfina í staðinn fyrir bremsuna.

„Þetta var bara algjört slys,“ segir Dóra sem reyndi eins og fyrr kemur fram að slá á létta strengi við konuna. Hún var þó ekki tilbúin að hlæja að slysinu, að minnsta kosti ekki ennþá.

Aðspurð hvort þeim hafi ekki brugðið þegar bíllinn kom inn um rúðuna segir Dóra að vissulega hafi verið hávaði. Hún vill þó sem minnsta gera úr atburðinum og standa þær enn vaktina í efnalauginni.

Dóra segir í góðu lagi að viðskiptavinir komi í laugina með látum, syngjandi jafnvel, en þetta sé kannski í það mesta bætir hún við í léttum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×