Innlent

"Ég myndi sjá mjög eftir landinu"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Bærinn Keldunes í Kelduhverfi stendur afar lágt og í raun bara á framburði úr Jökulsá á Fjöllum. Haftið milli árinnar og Skjálftavatns hefur verið styrkt með grjóti en komi stórt flóð mega slíkar varnir sín lítils. Á bænum eru 450 kindur og ferðaþjónusta auk veiðileyfasölu og hefur Bára Siguróladóttir búið þar í 40 ár.

„Við bíðum bara eins og allir hinir og sjáum til hvort eitthvað gerist. Það er ekkert hægt að undirbúa sig undir eitthvað sem maður veit ekki hvort verður,“ segir Bára.

Vegna hugsanlegs flóðs er búið að smala Vestursandinn, um mánuði fyrr en í venjulegu ári. „Kindurnar eru komnar heim í tún og við vitum ekki hvort við þurfum að fara með þær lengra. Á meðan allt er í biðstöðu viljum við bara hafa þær nær okkur.“

Litlaá rennur rétt hjá bænum og þar veiðist meðal annars vænn urriði. Ábúendur á bænum selja veiðileyfi en ef flóð kæmi yfir svæðið gæti farið illa fyrir veiðinni, bæði í ánni og í Skjálftavatni.

Sveitarstjóri Norðurþings tilkynnti ábúendum að ef til hamfara kæmi ætti fólk að keyra til Húsavíkur og tilkynna sig þar. „Aðrir hafa ekki hringt nema bara fjarskyldir ættingjar sem sem eru miklu stressaðri yfir þessu en við held ég,“ segir Bára. „Og svo fólk sem býr í Reykjavík en á hér sumarbústaði og jarðir.“

Öxarfjörður er það svæði sem mest myndi reyna á í flóði og fyrsti íbúafundurinn var haldinn í Lundi í gærkvöldi. „Mér finnst allt í lagi að fá einhverjar upplýsingar en mér finnst samt asnalegt að draga allt liðið úr Kelduhverfi austur fyrir Jökulsá ef það skyldi nú gerast eitthvað einmitt á þeim tíma.“

Óvissan er mikil en Bára kveðst þó áhyggjulaus, að mestu. „Þetta er orðið uppgróið land og ég myndi sjá mjög eftir landinu sem færi undir vatn, ef flóðið yrði eins stórt og möguleiki er sagður á.“


Tengdar fréttir

Aðgerðir koma illa við ferðaþjónustuna

Hræringarnar undir Bárðarbungu þegar haft mikil áhrif á samfélagið, meðal annars á ferðaþjónustu. Rauði krossinn er búinn undir hamfarir eins og aðrir viðbragðsaðilar.

Almannavarnir funduðu á Húsavík í dag

Mörg hundruð manns vinna að undirbúningi fyrir hugsanlegar náttúruhamfarir ef Bárðarbunga gýs og ríkislögreglustjóri fundaði með viðbragðsaðilum á Húsavík í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×