Körfubolti

„Ég kalla þetta öldungaráð sambandsins“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pavel og Jón Arnór fagna EM-sætinu.
Pavel og Jón Arnór fagna EM-sætinu. vísir/anton
„Þetta framtak er algjörlega að frumkvæði þessara frábæru manna og við erum eðlilega upp með okkur yfir framtakinu,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, og er þar að tala um framtak manna sem kalla sig „Körfuboltafjölskylduna“.

Hún hratt í gær af stað átaki þar sem fólk er hvatt til þess að styðja við körfuboltalandsliðið sem er á leið á EM næsta sumar. Körfuboltafjölskyldan vonast til þess að safna 6-7 milljónum sem munu koma í góðar þarfir.

„Við vitum ekki enn hver kostnaðurinn verður út af þessu móti en ég myndi skjóta á svona 30-35 milljónir króna. Svo fáum við styrk frá FIBA Europe sem ég veit ekki hvað er hár. Þetta á allt eftir að koma í ljós enda margt í óvissu með undirbúninginn til að mynda.“

Það eru körfuboltagoðsagnir á borð við EinarBollason og KolbeinPálsson sem standa að þessu merkilega framtaki.

„Ég kalla þetta öldungaráð sambandsins núna. Þetta eru mennirnir sem öllu ráða í dag,“ segir formaðurinn og hlær við enda létt yfir honum vegna framtaksins.

„Þeir hafa rætt þetta í einhvern tíma, þessir snillingar. Það hittist um 30 manna hópur sem keyrði þetta í gang. Að sjálfsögðu erum við með þeim í þessu og hjálpum þeim en þeir eiga algjörlega frumkvæðið að þessu. Það verður söguleg stund þegar Ísland fer á EM og margir þeirra bjuggust ekki við því að lifa þá stund að Ísland spilaði í lokakeppni stórmóts. Ég veit til þess að þeir ætla sér síðan að fara út á mótið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×