Lífið

„Ég hitaði bara upp í hvelli og gólaði síðan eitthvað“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Eygló mun læra svonefnda tónlistarþerapíu við Berklee.
Eygló mun læra svonefnda tónlistarþerapíu við Berklee. mynd/aðsend
„Mig langaði alltaf að verða tónskáld þegar ég var yngri,“ segir Eygló Höskuldsdóttir. „Síðan kom dálítið upp á í tónlistarnáminu sem varð til þess að ég ákvað að hætta við þann draum.“

Hún fór í kjölfarið að læra sálfræði í Háskóla Íslands en fór síðan í tónleikaferðalag með Björk Guðmundsdóttur og þar blossaði tónlistaráhuginn upp aftur.

„Þá hugsaði ég með mér að tónlistarþerapía væri frábær millivegur þess að vera tónskáld og sálfræðingur.“

Eygló sótti þá um í tónlistarþerapíu við Berklee College of Music en skólinn þykir einn besti tónlistarskóla Bandaríkjanna.

„Síðan þegar mér var boðið í prufu þá hélt ég að ég væri að fara að spila á píanó,“ segir Eygló sem komst að því fimm mínútum fyrir prufuna að hún ætti ekki að spila á píanó heldur syngja.

„Ég hitaði bara upp í hvelli og gólaði síðan eitthvað,“ segir Eygló og hlær. Hún fékk síðan bréf tveimur mánuðum seinna þess efnis að hún hefði komist inn. „Þá tók við meira vesen, þar sem ég á ekki sjö milljónir á ári í fjögur ár,“ segir hún en skólagjöldin eru svimandi há.

Eygló hefur því verið að búa til hárbönd og annan söluvænan varning ásamt móður sinni sem hægt er að nálgast á Facebook-síðunni Eygló fer í skóla. „Síðan er stóri Eyglóar-dagurinn 10. ágúst í Langholtskirkju,“ segir Eygló en þar heldur hún nokkurs konar styrktar- og kveðjutónleika klukkan 13.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×