Viðskipti innlent

„Ég hef ekkert vald í Kaupþingi”

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Einar Pálmi Sigmundsson ásamt verjanda sínum Gizuri Bergsteinssyni.
Einar Pálmi Sigmundsson ásamt verjanda sínum Gizuri Bergsteinssyni. vísir/gva
Einar Pálmi Sigmundsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings, lagði áherslu á það við skýrslutöku í dag að hann hafi ekki haft nein völd þegar kom að því að eiga viðskipti með hlutabréf bankans. Öll fyrirmæli hafi komið frá forstjóra Kaupþings á Íslandi, Ingólfi Helgasyni.

Vísaði hann meðal annars til þessa þegar Björn Þorvaldsson, saksóknari, hóf að spyrja út í einstaka viðskiptadaga á ákærutímabilinu. Saksóknari spilaði símtal Einars við verðbréfasalann Pétur Kristinn Guðmarsson sem einnig er ákærður í málinu:

PKG: „Þetta er á svipuðu leveli og við ákváðum að setja niður hælana í gær.”

EPS: „Já, eins og hann var að segja í gær, við erum þannig ekkert að setja niður hælana, bara svona, við eigum að stoppa frjálst fall raunverulega .”

Ekki klárir á hvaða skilaboð Ingólfur var að senda

Stuttu síðar í símtalinu segir Einar við Pétur að þegar þetta sé komið á eitthvað ákveðið level eigi að „styðja við það.”

Saksóknari spurði Einar hvað þeir Pétur hafi verið að ræða í símtalinu.

„Við vorum báðir þátttakendur í samtali við Ingólf daginn áður og erum greinilega ekki alveg klárir á því hver skilaboðin voru frá honum. Pétur heldur að hann vilji að við komum sterkir inn en ég vil meina... þetta með að stoppa frjálst fall. Það felur í raun í sér að ef þú ert með vakt eða seljanleika í verðbréfi þá er lágmark að þú stoppir frjálst fall sem á sér ekki stoð í grundvallarbreytingu á markaði,” sagði Einar.

Saksóknari spurði þá af hverju það hafi átt að „styðja við” þegar það væri komið á ákveðið level.

„Þetta virkar þannig að ef þú ert með öfluga viðskiptavakt þá ertu alltaf að styðja við verðbréf sem er á leiðinni niður. Það er hlutverk viðskiptavaktar að minnka sveiflur, líka þegar að verðið er upp á við. [...] Við notum bara þetta orðfæri, að styðja við.”

Ósáttur við hversu mikið þeir keyptu en seldu lítið á móti

Hann var þá spurður hvort að þetta hafi verið fyrirmæli frá honum sjálfum eða Ingólfi.

„Ég hef ekkert vald í Kaupþingi. Það var lögð almenn lína og svo nánari lína,” svaraði Einar.

Áður hafði Einar greint frá því að eigin viðskipti Kaupþings hafi verið óformlegur viðskiptavaki í hlutabréfum bankans. Hann hafi hins vegar verið ósáttur við hversu mikið bankinn keypti í sjálfum sér og seldi lítið, eins og væri hlutverk formlegra viðskiptavaka. Þeir ættu ekki bara að kaupa, líka selja.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×