Lífið

"Eftir því sem ég best veit verð ég ekki í leikhúsinu í ár“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Söng- og leikkonan Margrét Eir hefur haft í mörgu að snúast á löngum ferli en auk þess að syngja með hljómsveitinni Thin Jim og raddsetja mikið af því barnaefni sem í boði er á Íslandi, hefur Margrét verið áberandi á leikhúsfjölunum.

Margrét hefur meðal annars leikið í Mary Poppins og Vesalingunum auk þess sem hún setti upp Ef lífið væri söngleikur í Salnum  ári ásamt fleiri listamönnum. Á þessu leikári verður hins vegar breyting á.

„Eftir því sem ég best veit verð ég ekki í leikhúsinu í ár,“ segir Margrét og heldur áfram.

„Maður veit þó aldrei hvað morgundagurinn býður upp á. Margrét situr þó ekki auðum höndum en hljómsveit hennar, Thin Jim, leggur nú lokahönd á nýja plötu.

„Á plötunni verða mestmegnis amerísk þjóðlög, kannski lítið þekkt hér heima en algerar gersemar,“ segir Margrét en nýir íslenskir textar hafa verið samdir við lögin. 

„Þetta eru mikið af fallegum textum sem segja okkur sögu; okkar sögu.“  

Páll Rósinkranz og Margrét.
Hljómsveitinni barst nýlega liðsstyrkur frá einum þekktasta söngvara landsins, Páli Rósinkranz, og segir Margrét aðkomu hans mikinn hvalreka fyrir sveitina. 

„Ég hef varla heyrt í betri söngvara, þetta verður frábær plata,“ segir Margrét Eir glöð í bragði. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×