Innlent

„Ef ekki næst að klára, þá verður ekki kosið“

Birgir Olgeirsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
„Þegar boðaður var sá möguleiki að kjósa í haust þá var það háð skilyrðum. Það var algerlega ljóst,“ skrifar Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Facebook þar sem hann tjáir skoðun sína um mögulegar kosningar í haust. Hann segir ekki þýða fyrir stjórnarandstöðuna eða aðra að halda öðru fram en að boðun mögulegra kosninga hefði verið háð skilyrðum

„Ég veit ekki til þess að stjórnarandstaðan hafi lofað að hleypa áherslumálum ríkisstjórnarinnar í gegn, sem var eitt skilyrðið, þvert á móti. Ef ekki næst að klára, þá verður ekki kosið,“ skrifar Gunnar Bragi og vill meina að ef stjórnarandstaðan eða aðrir haldi öðru fram núna sé það í besta falli einbeittur vilji til að segja ósatt.

„Í versta falli lygi.“

Þessi skrif Gunnars Braga eru í ætt við það sem sem þingmenn Framsóknar héldu fram í samtali við Vísi fyrr í dag. Vigdís Hauksdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson sögðu að ekki tilefni til kosninga ef ekki næst að klára verkefni ríkisstjórnarinnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að óhjákvæmilegt væri að bæta við þingfundardögum í haust til að klára öll mál ríkisstjórnarinnar. Samkomulag um að flýta kosningum hafi verið viðleitni til að ná saman við stjórnarandstöðuna en vantrauststillaga hennar hefði haft áhrif á þau áform.


Tengdar fréttir

Óhjákvæmilegt að fjölga þingfundardögum

Óhjákvæmilegt er að bæta við þingfundardögum í haust til að klára öll mál ríkisstjórnarinnar. Þetta segir formaður Framsóknarflokksins. Samkomulag um að flýta kosningum hafi verið viðleitni til að ná saman við stjórnarandstöðuna en vantrauststillaga hennar hefði haft áhrif á þau áform.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×