Innlent

„Ef ég trúi þessu, af hverju má ég þá ekki vera í friði með það?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Forseti Sálarrannsóknarfélags Íslands, Magnús Má Harðarson, segir að það sé ekki stór hópur hér á landi sem sé gæddur þeirri sérgáfu að geta miðlað. Hann sjálfur sé til dæmis næmur en hafi ekki sömu gáfu og spámiðlar.

 

Til að ganga úr skugga um að fólk sem vilji starfa hjá Sálarrannsóknarfélaginu sé í raun með þessa sérgáfu gengst það undir sérstakt próf.

„Þeir sem koma hingað til okkar fara í próf, oftast er það nú ég sem er viðstaddur prófið og svo einn miðill. Prófið gengur þannig fyrir sig að þeir þurfa að miðla fyrir okkur og ég sit bara og hlusta.“

Magnús segist byggja á reynslu.

„Sem ungur maður reyndi ég þetta og fékk reynslu af þessu í gegnum svona fólk. Ég trúi þessu statt og stöðugt að þetta sé svona og ég skil ekki tilganginn með því að vera að æsa sig yfir því úti í þjóðfélaginu. Ef að ég trúi þessu, af hverju má ég þá ekki bara vera í friði með það?“

Ef fólk lokar á miðlana verður ekki neitt úr neinu

Hann segir dagsformið skipta máli fyrir spámiðla.

„Miðlarnir eru bara eins og tæki. Eins og síminn sem ég held á núna, hann gæti klikkað núna en það þýðir ekki að allir símar séu ónýtir. Það er dagsformið sem skiptir máli. Ég upplifði það líka í þættinum, það litla sem ég sá, að Þórhallur hafi verið svolítið nervus og þegar maður er nervus þá nær maður ekki sínu besta.“

Þá bendir Magnús á að í Sálarrannsóknarfélagið komi fólk sem ætlar sér að sýna og sanna að starf miðla sé tómt rugl.

„Oftar en ekki þá stendur bara miðillinn upp og segir að þetta gangi ekki. Það er vegna þess að þá lokar fólk á þetta og neitar að þetta sé til og þá verður ekki neitt úr neinu.“

Rætt var við Magnús í Reykjavík síðdegis í gær og má hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×