Erlent

„Dómurinn er enn ein vísvitandi atlagan að tjáningarfrelsi fjölmiðla“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Mennirnir þrír störfuðu allir fyrir Al Jazeera.
Mennirnir þrír störfuðu allir fyrir Al Jazeera.
Þrír fréttamenn Al Jazeera voru í gær dæmdir til fangelsisvistar fyrir að hafa aðstoðað hryðjuverkasamtök. Ferlið hefur verið langt en málið var tekið til endurrannsóknar fyrir rétti.

Mohamed Fahmy og Baher Mohamed voru í Egyptalandi þar sem réttarhöldin fóru fram. Dómur yfir þeim síðarnefnda var þyngdur um hálft ár. Hinn ástralski Peter Greste sem var vísað úr landi í febrúar fyrr á árinu var dæmdur án þess að vera viðstaddur.

Mönnunum var gert að sök að hafa aðstoðað samtökin Múslimska bræðralagið en meðlimir þess voru gerðir útlægir frá Egyptalandi eftir að herinn steypti árið 2013 Mohamed Morsy þáverandi forseta landsins af stóli. Mikil mótmæli höfðu verið í landinu.

Dómarinn í gær nefndi ekki hryðjuverk en sagði að fréttaefni blaðamannanna hafi innihaldið falskar fréttir og að þær hafi verið sendar í loftið í því skyni að skaða Egyptaland.

Málsaðilar sögðust hafa verið að vinna vinnuna sína sem felst í því að segja allar hliðar á því sem átti sér stað í Egyptalandi á þessum tíma.

Mostefa Souag, ritstjóri Al Jazeera, hefur fordæmt dóminn og segir hann ganga gegn skynsemi og rökréttri hugsun auk þess sem réttarhöldin hafi verið óréttlát og undir miklum pólitískum áhrifum. „Dómurinn er enn ein vísvitandi atlagan að tjáningarfrelsi fjölmiðla. Þetta er svartur dagur í sögu egypskra dómstóla, frekar en að verja frelsi og frjálsa og sanngjarna fjölmiðlun hafa dómstólarnir fórnað hlutleysi sínu af pólitískum ástæðum.“

Mennirnir þrír voru fyrst dæmdir á síðasta ári fyrir að hafa setið á svikráðum við Múslimska bræðralagið, fyrir að deila fölskum fréttum og setja þjóðaröryggi í hættu en þeir hafa alltaf sagst saklausir af þessum ásökunum.

Ástralinn Peter Greste sagðist á Twitter vera í áfalli, hann væri reiður og í raun misboðið. Hann sagði engin sönnunargögn renna stoðum undir dóminn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×