Íslenski boltinn

„Dómararnir hræddir þegar þeir sjá stelpur slást“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Áhugavert atvik úr leik Þórs/KA og KR í fjórðu umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta var til umræðu í Pepsi-mörkum kvenna á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.

Eftir fimmtán mínútna leik fékk Sara Lissy Chontosh, leikmaður KR, gult spjald fyrir að brjóta á Söndru Gutierrez. Gutierrez var óhress með brotið enda nokkuð gróft og ýtti hún hressilega við Contosh en slapp með gult spjald.

„Ég næ ekki þessari hegðun. Þetta er alltaf gult spjald, það er alveg öruggt,“ sagði Máni Pétursson, sérfræðingur í Pepsi-mörkum kvenna, um brotið hjá KR-stúlkunni en bætti við: „Samkvæmt öllum reglum er þetta gult spjald líka [á Gutierrez].“

„Fyrirgefðu að ég segi þetta en það er eins og karlmennirnir sem dæmi þessa leiki stundum fari í eitthvað „panic“ þegar þeir sjá stelpur slást.“

„Þegar smá slagsmál brjótast út er eins og þeir séu ekki starfi sínu vaxnir. Við sáum þetta líka í Fylkir-ÍBV þar sem dómarinn stendur stjarfur og horfi á kvennaslagsmál,“ sagði Máni.

Svipað atvik kom nefnilega upp í viðureign Fylkis og ÍBV þar sem Fylkiskonan Rut Kristjánsdóttir og Eyjakonan Cloe Lacasse lentu í útistöðum og létu hnefana tala. Meira um það hér.

„Þetta á ekki að vera þannig. Þetta er bara brot hvort sem um er að ræða karlmenn eða kvenmenn,“ sagði Rakel Logadóttir.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×