Erlent

„Djákni dauðans“ sakaður um að myrða tíu manns

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ivo Poppe er sakaður um að hafa myrt fórnarlömb sín með því að sprauta lofti í æðar þeirra.
Ivo Poppe er sakaður um að hafa myrt fórnarlömb sín með því að sprauta lofti í æðar þeirra. vísir/getty
Réttarhöld yfir kaþólskum djákna sem ákærður er fyrir að myrða að minnsta kosti tíu manns, þar á meðal móður sína, hófust í Belgíu í dag.  

Maðurinn, sem heitir Ivo Poppe, er 61 árs gamall og fyrrverandi hjúkrunarfræðingur. Hann er sakaður um að hafa myrt fórnarlömb sín með því að sprauta lofti í æðar þeirra en brotin áttu sér stað á læknastofu í Menen þar sem hann starfaði sem hjúkrunarfræðingur og síðar sem djákni.

Fjölmiðlar í Belgíu hafa kallað Poppe „djákna dauðans.“ Verði hann fundinn sekur fer hann í hóp verstu raðmorðingja í sögu Belgíu, að því er fram kemur á vef BBC.

Poppe var handtekinn árið 2014 eftir að hann sagði geðlækninum sínum frá því að hann hefði aðstoðað fólk við að deyja líknardauða. Upphaflega játaði hann sök að hluta og kvaðst hafa verið að aðstoða þá sem voru með ólæknandi sjúkdóma við að deyja. Hann breytti síðar framburði sínum og neitar nú sök.

 

Á meðal þeirra sem hann er ákærður fyrir að myrða eru nokkrir af ættingjum hans; tveir frændur, tengdafaðir hans og móðir sem hann á að hafa myrt árið 2011.

Móðir Poppe þjáðist af þunglyndi en læknar hennar hafa neitað því að hún hafi viljað deyja líknardauða.

Saksóknarar telja að Poppe hafi mögulega myrt mun fleiri en þá tíu sem hann er ákærður fyrir en lögmenn hans segja þá af og frá.

Réttarhöldin munu standa yfir í að minnsta kosti viku og munu tugir vitna koma fyrir dóminn, þar á meðal ættingjar þeirra sem Poppe á að hafa myrt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×