Körfubolti

Deng óttast um framtíð breska körfuboltans eftir töpin á móti Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luol Deng.
Luol Deng. Vísir/Getty
Luol Deng, nýr leikmaður Miami Heat í NBA-deildinni og enskur landsliðsmaður í körfubolta, hefur miklar áhyggjur af framtíð breska körfuboltans.

Bretar urðu í þriðja sæti í sínum riðli í undankeppni EM, á eftir Bosníu og Íslandi, og eru úr leik í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni fyrir lokaumferðina.

Luol Deng gaf ekki kost á sér í leikina en Bretar töpuðu öllum fjórum leikjum sínum þar á meðal með 13 stigum á móti Íslandi í Laugardalshöllinni og með 2 stigum á móti Íslandi í London.

„Körfuboltinn er mjög nálægt því að leggjast af í Bretlandi. Á þessari stundu veit ég ekki hvað er næst á dagskrá. Við verðum bara að bíða og sjá hvað planið er," sagði Luol Deng svartsýnn við BBC.

Breska landsliðið í körfubolta var með á Ólympíuleikunum 2012 og Evrópumótinu 2013 þar sem liðið endaði í 13. til 16. sæti. Luol Deng var með 15,8 stig, 6,6 fráköst og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í leik á Ólympíuleikunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×