Innlent

„Deilur skapað vonda ímynd fyrir Kópavog“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð mynduðu formlega nýjan meirihluta í Kópavogi í dag. Ármann Kr. Ólafsson verður áfram bæjarstjóri í Kópavogi. Bæjarstjórinn segir verði breyttur bragur á nýrri bæjarstjórn og átakatímabil sé á enda.

Ármann Kr. Ólafsson, sem áfram verður bæjarstjóri, kynnti helstu stefnumál meirihlutans fyrir kjörtímabilið en þau eru meðal annars að koma skólum Kópavogsbæjar í fremstu röð og hafa bókhald bæjarins opið. Málefnasamningur meirihlutans verður lagður fram á fyrsta bæjarstjórnarfundi.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk fimm bæjarfulltrúa kjörna í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Talið var líklegast að flokkurinn færi í meirihlutasamstarf með Framsóknarflokknum. Hvers vegna Björt framtíð?

„Það er vegna þess að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru sammála um að það væri gott að vera með aukin meirihluta og það var vilji fólksins að prófa þetta fyrst. Það var mikill samhljómur með stefnuskránum og því stigum við þetta skref,“ segir Ármann Kr.

Vilja skapa meiri ró

Theódóra S. Þorsteinsdóttir lýst vel á samstarf með Sjálfstæðisflokknum og Ármanni sem bæjarstjóra. „Mér lýst ágætlega á það. Ármann fékk ágæta traustyfirlýsingu fannst okkur í þessum kosningum. Það verður gaman að vinna með honum næstu fjögur árin.“

Talverð átök voru í bæjarstjórn Kópavogs á síðasta kjörtímabili. Theódóra segir það hafa skaðað ímynd bæjarfélagsins. „Það er markmið af okkar hálfu að það skapist meiri ró. Auðvitað má fólk takast á málefnalega en þessar deilur sem hafa verið hafa skapað vonda ímynd fyrir Kópavog. Við erum bjartsýn á að það verði breyting þar á,“ segir Theodóra.

Ármann tekur í svipaðan streng. „Ég hef mikla trú á þeim bæjarfulltrúum sem eru að koma inn. Það eru níu nýir bæjarfulltrúar sem er auðvitað mjög mikið. Á samtölum við þetta fólk þá er mjög bjartsýnn með framhaldið og að það verði breyttur bragur á bæjarstjórninni í Kópavogi.“


Tengdar fréttir

Bókhald Kópavogs verður opnað og íbúalýðræði virkjað

Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð hafa myndað nýjan meirihluta í Kópavogi. Ármann Kr. Ólafsson verður áfram bæjarstjóri. Bókhald bæjarins verður opnað og íbúalýðræði verður virkjað með kosningum um einstök mál í hverfum bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×