Bíó og sjónvarp

"David Gordon Green er búinn að sjá myndina og elskaði hana“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Hafsteinn ásamt aðalleikurum myndarinnar; Helga Björnssyni, Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og Birni Thors.
Hafsteinn ásamt aðalleikurum myndarinnar; Helga Björnssyni, Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og Birni Thors.
„Það var pakkfullur salur, um tólf hundruð manns, og þetta var í fyrsta sinn sem ég sýndi myndina opinberlega. Og í fyrsta sinn sem ég sé hana með fólki. Það var góð tilfinning,“ segir leikstjórinn Hafsteinn Gunnar Sigurðsson. Hann frumsýndi kvikmyndina París norðursins á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Karlovy Vary í Prag í Tékklandi á þriðjudagskvöldið. Hann segir að myndin hafi hlotið góð viðbrögð hingað til.

„Það er frábær stemning hér. Það er mikil bíómenning í Tékklandi og hér er frábær jarðvegur til að frumsýna mynd. Ég finn fyrir mikilli athygli og myndin er búin að fá boð á fleiri hátíðir í kjölfarið á sýningunni á þriðjudag. Þannig að mér sýnist hún fara vel af stað,“ segir Hafsteinn en getur lítið sagt um hvaða hátíðir eru fram undan.

„Við förum til Króatíu eftir þrjár vikur í keppni á kvikmyndahátíð þar en myndin á örugglega eftir að flakka töluvert á árinu, þó ég geti ekki talað um hvert akkúrat núna. Svo stefnum við á að frumsýna hana á Íslandi með haustinu.“

Helgi Björns tók sporið á rauða dreglinum.
París norðursins keppir um Crystal Globe-verðlaunin, svokallaða Kristalskúlu, á hátíðinni ásamt ellefu öðrum myndum. Verðlaunin verða afhent á laugardaginn og sigri Hafsteinn verður hann ekki fyrsti Íslendingurinn til að hreppa hnossið þar sem Baltasar Kormákur hlaut verðlaunin árið 2007 fyrir Mýrina. Aðrir sigurvegarar í gegnum tíðina eru til dæmis Jean-Pierre Jeunet fyrir Amélie og Alain Berliner fyrir Ma vie en rose. Hafsteinn gerir sér engar vonir um sigur þótt hann leyfi sér að sjálfsögðu að dreyma.

„Maður veit aldrei. Þetta er alltaf bara lottó og erfitt að spá fyrir um hver hlýtur verðlaunin. En auðvitað vonar maður að maður verði fyrir valinu.“

Hafsteinn er hvað þekktastur fyrir kvikmyndina á Annan veg sem endurgerð var í Bandaríkjunum sem Prince Avalanche og frumsýnd í fyrra. Leikstjórn var í höndum Davids Gordons Green og útilokar Hafsteinn ekki frekara samstarf þeirra á milli.

„David Gordon Green er búinn að sjá myndina og elskaði hana. Við erum í góðu sambandi og það er verið að tala um fleiri endurgerðir. Það gæti alveg verið eitthvað meira að frétta á næstunni,“ segir Hafsteinn dulur. Hann er með tvö önnur verkefni í gangi, annars vegar kvikmyndina Kanarí og hins vegar mynd byggða á handriti eftir Huldar Breiðfjörð, sá hinn sama og skrifaði handritið að París norðursins. 

Hafsteinn kynnir myndina á heimsfrumsýningunni á þriðjudagskvöldið.
Unaðslega skringileg

Gagnrýnandinn Mark Adams hjá Screen Daily gefur París norðursins frábæra dóma.

„Unaðslega skringilegt íslenskt gamandrama. Hafsteinn Gunnar Sigurðsson býður upp á mynd sem er auðvelt að horfa á og fjallar á slyngan hátt um bresti í mannlegum samskiptum með áherslu á karlmenn. Hann er einn af bestu upprennandi, ungu, evrópsku leikstjórunum og hefur búið til afhjúpandi, skemmtilega og gáfulega mynd sem á að varðveita.“

Hópurinn svarar spurningum eftir aðra sýningu í gærmorgun.
Með þeim bestu í heiminum

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Karlovy Vary, eða KVIFF, var fyrst haldin árið 1946 og er því haldin í 49. sinn í ár.

Hátíðin er ein sú elsta sinnar tegundar í heiminum og hefur síðustu ár skipaði sér sess sem ein af stærstu kvikmyndahátíðum Evrópu.

Árlega heimsækja þúsundir manna alls staðar að úr heiminum hátíðina, þar á meðal um 840 dreifingaraðilar, framleiðendur og útsendarar kvikmyndahátíða, og um sjö hundruð blaðamenn.

Karlovy Vary er ein af fjórtán kvikmyndahátíðum í keppnisflokki sem bera A-stimpil frá Alþjóðlegum samtökum kvikmyndaframleiðenda. Aðrar hátíðir í þeim flokki eru til dæmis kvikmyndahátíðin í Cannes, alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Berlín og kvikmyndahátíðin í Feneyjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×