Enski boltinn

„City mun spila betri fótbolta undir stjórn Guardiola“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guardiola er á leiðinni til Englands.
Guardiola er á leiðinni til Englands. vísir/gettyr
Roque Santa Cruz, fyrrverandi leikmaður Manchester City, telur að liðið muni spila betri fótbolta á næstu leiktíð þegar Pep Guardiola er tekinn við.

Spænski þjálfarinn lýkur þriggja ára dvöl sinni í Þýskalandi í lok tímabilsins og heldur til Manchester City þar sem hann verður launahæsti þjálfari heims. Hann er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við City.

Manchester City er búið að vinna deildina einu sinni og deildabikarinn í tvígang undir stjórn Manuels Pellegrini og er komið í fyrsta sinn í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Þrátt fyrir það sér Santa Cruz, sem spilaði átta ár með Bayern áður en hann kom til City, fyrir sér miklar breytingar til batnaðar hjá liðinu.

„Ég tel að City vilji spila góðan fótbolta. Liðið er með marga frábæra leikmenn. Þeir munu kunna að meta gildi Guardiola og hans hugmyndafræði,“ segir Santa Cruz í viðtali við Omnisport.

„Liðið mun halda áfram að þróast og verða enn betra með hann. Ég held að við munum sjá Manchester City líka spila miklu betri fótbolta,“ segir Roque Santa Cruz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×