Enski boltinn

City að missa af Pogba og De Bruyne

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba og Kevin de Bruyne.
Paul Pogba og Kevin de Bruyne. vísir/getty
Samkvæmt fréttum ensku blaðanna í morgun virðist vera að Manchester City fái hvorki Paul Pogba né Kevin de Bruyne, leikmennina tvo sem félagið hefur sóst hvað mest eftir.

Manchester City er sagt tilbúið að greiða Juventus 70 milljónir punda fyrir Pogba og borga honum 220.000 pund í vikulaun.

Þrátt fyrir það virðist líklegast að Frakkinn ungi endi hjá Barcelona. Hjá Börsungum er aðalatriðið að landa Pogba og er Katalóníurisinn vongóður um að svo verði. PSG og Real Madrid eru þó einnig inn í baráttunni.

Belginn Kevin de Bruyne sló í gegn í þýsku 1. deildinni á síðustu leiktíð og hann ætlar að vera áfram hjá Wolfsburg, samkvæmt nýjust fréttum.

„Hann er með samning til 2019 þannig menn vita alveg hvernig málin standa. Hann fer ekki neitt,“ segir Klaus Allofs, yfirmaður knattspyrnumála hjá Wolfsburg.

Ekki nóg með að De Bruyne sé með samning til næstu fjögurra ára mun hann að öllum líkindum skrifa undir nýjan samning í sumar.

Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður City, vill landa nokkrum feitum bitum til að koma í veg fyrir annað titlalaust tímabil hjá liðinu.

Liverpool er einnig búið að hafna tilboði City í Raheem Sterling og heimtar 50 milljónir punda fyrir leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×